Viðgerðirnar taka nokkra daga í viðbót

Frá svæðinu síðdegis á mánudag.
Frá svæðinu síðdegis á mánudag. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Vegagerðin ætlar að vinna fullnaðarviðgerð strax á Norðfjarðargöngum eftir að steypa féll úr loftinu fyrr á mánudaginn. Reiknað er með að vinnan taki nokkra daga í viðbót.

Síðar í dag verður smærri bílum hleypt reglulega inn í göngin á ákveðnum tímum. Hlé verður gert á vinnunni á meðan.

Undanfarið hafa smærri bílar hafa þurft að fara í gegnum Oddskarðsgöng, sem eru einbreið, á meðan stærri bílum hefur verið hleypt í hollum í gegnum Norðfjarðargöng.

Á þessari mynd má sjá steypuna sem hrundi úr loftinu …
Á þessari mynd má sjá steypuna sem hrundi úr loftinu í Norðfjarðargöngum. Ljósmynd/Vegagerðin

Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, verður sent fljótlega út skipulag með tímasetningum fyrir bifreiðar sem ætla í gegnum Norðfjarðargöng.

Hann segir að tveggja metra boltar verði settir inn í bergið, ásamt neti og sprautusteypu, til að koma í veg fyrir að frekari steypa falli niður úr loftinu. Aðspurður segir hann viðgerðirnar ekki umfangsmeiri en talið var í fyrstu.

Uppfært kl. 12.22:

Vegagerðin hefur sent frá sér tilkynningu þar sem kemur fram hvenær bifreiðir geta farið í gegnum Norðfjarðargöng. Vonast er til að vinnu við viðgerðirnar ljúki um næstu helgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert