Þórir Sæmundsson, sem var umfjöllunarefni ríkisútvarpsins í sjónvarpsþættinum Kveik í gærkvöldi, hefur tjáð sig á Facebook í kjölfar þess að þátturinn var birtur, en hann birti þar færslu síðdegis í dag.
„[E]rfiðasta atvinnuviðtalið,“ skrifar Þórir þar og vísar ljóslega til þáttarins.
Í þættinum kvartaði Þórir meðal annars undan því að hafa hvergi fengið atvinnu, að eigin sögn, eftir að honum var vikið frá störfum í Þjóðleikhúsinu árið 2017.
Var það gert eftir að í ljós kom að hann hafði sent typpamynd af sér til samstarfskonu í leikhúsinu á menntaskólaaldri.
Áður hafði leikhúsinu borist nafnlaus ábending um að fimmtán ára stúlka hefði fengið ósiðlegar myndir frá Þóri í skilaboðum á Twitter, eins og segir í umfjöllun Vísis sama ár.
Gekkst hann við því að hafa sýnt af sér ósæmilega hegðun og áreitt konur.
Einnig var í þætti gærkvöldsins vikið að því að Þórir teldi víst að hann hefði gengið of nærri samstarfskonum sínum í Borgarleikhúsinu þegar hann lék í söngleiknum Mary Poppins árið 2015.
„Og ég ætla ekkert að kenna neinu um eða svoleiðis, en þarna er ég enn þá í neyslu og er svolítið ruglaður á því, og er að vinna með mörgum ungum konum. Dönsurum og svona í Mary Poppins,“ sagði Þórir.
Hann hafi fengið tiltal frá leikstjóranum, eftir að ein þessara ungu kvenna kvartaði undan skilaboðum sem Þórir hafði sent.
„Og það voru ekki nektarmyndir eða eitthvað svoleiðis, en óviðeigandi skilaboð, já.“
Einnig var í gær rifjað upp hvernig Þórir hefði haldið úti Twitter-reikningi undir huldunafni, en þar fór hann jafnan mikinn. Upp komst um það vorið 2019.
Í framhaldi á þeirri upprifjun sagði Þórir í þættinum:
„Ég er svo mikið fórnarlamb í þessu einhvern veginn, en mig langar ekkert að vera það. Mig langar ekki að tala um það. Og mig langar ekki að fokking sitja hérna og tala um það í sjónvarpinu einu sinni. En ég veit ekki hvað ég á að gera.“
Sagðist hann vera „í vonlausri stöðu“. Hann hafi sótt um 200-300 störf síðan hann var rekinn úr leikhúsinu, en ekkert þeirra fengið. Honum hafi þá verið sagt upp eftir skamman tíma í þeim verkefnum eða störfum sem hann þó hafi fengið.
Þrisvar hefði hann misst vinnu eftir ráðningu, bara vegna þess að nafn hans hefði verið slegið inn í leitarvél á netinu.
Spurður síðar hvort hann hefði íhugað að flytja úr landi, í ljósi atvinnuörðugleika sinna, kvaðst hann gera það á hverjum degi. Honum finnist þó eins og hann sé að flýja geri hann það.
„En mig langar ekki að fara. Einhverra hluta vegna þá langar mig að búa hérna í þessu klikkaða samfélagi,“ sagði Þórir um Ísland.
„En, það er ekki mikið eftir. Því ég á ekki rétt á atvinnuleysisbótum lengur. Og þá er bara eitt eftir í stöðunni,“ bætti hann við og sagði að það væri að gerast glæpamaður.
„Er enginn þarna sem vill ráða mig í vinnu?“ sagði hann síðar. „Ég er á besta aldri, tala sex tungumál. Ég er með meirapróf meira að segja. Plís, einhver.“
Eins og mbl.is greindi frá í gærkvöldi hefur umfjöllun Kveiks hlotið mikla gagnrýni, og ljóst að mörgum finnst sem ræða hefði mátt við fleiri í tengslum við mál Þóris. Og þá einnig um málefni gerenda í kynferðisofbeldismálum almennt.
Íris Ellenberger, aðstoðarprófessor við Háskóla Íslands, tjáði sig um umfjöllunina í dag:
Fjölmiðlakonan Þóra Tómasdóttir hefur þá sagt umfjöllun þáttarins of einhliða.
Hlaðvarpsstjórnandinn Tinna Haraldsdóttir hefur sagt framsetningu þáttarins skammarlega.
Og þetta segir Kjartan Valgarðsson, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar: