Vissi ekki hvort hún ætti að hlæja eða gráta

„Ég var mjög ringluð á þessum aldri og brotin,“ segir …
„Ég var mjög ringluð á þessum aldri og brotin,“ segir Jófríður. mbl.is/Hari

Ung kona hefur stigið fram og sagt frá reynslu sinni af samskiptum við Þóri Sæmundsson leikara. Gerir hún það eftir birtingu þáttar ríkisútvarpsins þar sem rætt var við Þóri, en honum var sagt upp störfum árið 2017 vegna kynferðislegs áreitis.

Meginumfjöllunarefni þáttarins var atvinnuleysi Þóris síðustu ár, í kjölfar uppsagnarinnar.

Konan, Jófríður Ísdís Skaftadóttir, hafði þetta að segja um þáttinn í gærkvöldi:

Valdamismunun

Í samtali við Stundina í dag segir Jófríður að málið hafi tekið verulega á hana þegar hún var sextán ára. Síðan þá hafi hún unnið mikið úr því.

„Þetta var fyrir sjö árum. Ég var mjög ringluð á þessum aldri og brotin. Ég hitti hann eftir að við höfðum náð saman á Tinder. Í prófílnum mínum þar stóð að ég væri 18 ára en þegar ég og Þórir hittumst sagði ég honum strax að ég væri 16 ára. Honum fannst ekkert athugavert við það og við sváfum saman. Það var ekki þvingað samræði, en ég var svo ung og brotin að strax daginn eftir lokaði ég á öll samskipti við hann og reyndi að gleyma því sem hafði gerst,“ er haft eftir Jófríði í umfjöllun Stundarinnar.

„Mér leið mjög illa en kunni ekki að orða það sem ég veit í dag að var valdamismunun. Hann var ekki bara helmingi eldri en ég, og ég unglingur, heldur var hann líka frægur leikari. Það ýfði sárin þegar fréttir af hans atferli voru sagðar fyrir nokkrum árum og þegar hann reyndi að nálgast mig að nýju fyrir nokkrum mánuðum á Instagram. Það vakti með mér óhug.“

Eins og mbl.is hefur fjallað um hefur þátturinn vakið hörð viðbrögð víða í samfélaginu. Helst er fundið að því að ekki hafi verið fleiri fengnir til að tjá sig um mál Þóris, eða almennt um málefni gerenda í kynferðisofbeldismálum.

Þórir Sæmundsson í viðtali Kveiks.
Þórir Sæmundsson í viðtali Kveiks. Skjáskot/Ríkisútvarpið

Gerendum hampað og þolendur skrímslavæddir

„Ég var sjokkeruð strax þegar ég sá kynningu þáttarins og vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta, svo fylltist ég reiði því ég veit ekki til að þessi maður hafi beðið þær sem hann er sakaður um að hafa komið illa fram við, afsökunar,“ segir Jófríður í samtali við Stundina.

„Ég er orðin langþreytt á því hvernig umræða um kynferðisbrot er hér á landi. Gerendum er hampað og þolendur eru skrímslavæddir. Þolendur eru sakaðir um að eyðileggja líf og frama gerenda sinna með því að stíga fram, meðan þeir sjá alveg um það sjálfir með sínum gjörðum og algjörum skorti á iðrun.“

Sjálfur hefur Þórir talað um umfjöllunina sem atvinnuviðtal, og aðspurður í þætti ríkisútvarpsins sagðist hann ekki vilja fara úr landi til að leita vinnu annars staðar.

„Ein­hverra hluta vegna þá lang­ar mig að búa hérna í þessu klikkaða sam­fé­lagi,“ sagði Þórir um Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert