Borgarráð samþykkti í dag að stórauka fjárframlög til viðhalds og viðgerða á skólahúsnæði í borginni og verður 25-30 milljörðum varið til málaflokksins á næstu 5-7 árum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Þar segir að mikill kraftur verði settur í viðhald og viðgerðir á húsnæði fyrir skóla og frístundastarf í borginni. Húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar í eigu Reykjavíkurborgar telur 136 eignir á alls rúmlega 265 þúsund fermetrum. Þá verði áætluð fjárþörf átaksins á næstu fimm til sjö árum 25-30 milljarðar króna á verðlagi í september 2021.
Stýrihópur á vegum borgarinnar muni forgangsraða verkefnum þannig að „öryggi notenda sé númer eitt, heilnæmt umhverfi númer tvö, þar með talið innivist, raki, mygla og hljóðvist. Bætt aðgengi komi þar næst, fyrirbyggjandi aðgerðir svo og hagkvæm nýting fjármuna.“ Við forgangsröðun skuli svo einnig taka tillit til sjónarmiða stjórnenda, fulltrúa notenda og áhrifa á starfsemi á hverjum stað.
Átakið snúist þó einungis um viðgerðir og viðhald en ekki nýbyggingar eða viðbyggingar sem eru fjármagnaðar með öðrum hætti.
Samhliða voru kynnt drög að nýrri stefnu í húsnæðismálum fyrir skóla- og frístundastarf í anda menntastefnunnar Látum draumana rætast og Græna plansins, „framtíðarsýn um borgarsamfélag sem einkennist af heilnæmu umhverfi, jöfnum tækifærum og öflugu atvinnulífi sem gengur ekki á náttúruauðlindir“, eins og því er lýst í tilkynningunni. Í nýju stefnunni eru sett fram viðmið fyrir nýbyggingar, viðbyggingar og breytingar á húsnæði fyrir leikskóla, frístundaheimili, grunnskóla, skólahljómsvetiri og félagsmiðstöðvar.