Stjórn Eflingar fundaði í dag og var afsögn Sólveigar Önnu Jónsdóttur úr embætti formanns formlega afgreidd á fundinum. Agnieszka Ewa Ziólkowska tekur við embætti formanns og kemur til með að gegna því fram að næstu formanns- og stjórnarkosningum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu.
Samkvæmt lögum félagsins fara kosningar til formannsembættis og stjórnar fram í mars á næsta ári. Á fundinum var varaformaður kjörinn úr stjórn félagsins og tekur Ólöf Helga Adolfsdóttir við embættinu.
Fram kemur einnig í tilkynningu að stjórnin leggi áherslu á að „tryggja órofa starfsemi félagsins“.
Þá segir einnig að félagsins bíði það mikla verkefni að undirbúa næstu kjarasamningsviðræður enda verði samningar lausir í lok næsta árs. „Í þessu verkefni mun Efling áfram vera sterkur málsvari verkafólks.“
Þá er snert á þeim vandræðum sem hafa umlukið félagið undanfarna daga í tilkynningunni.
„Stjórn Eflingar mun nú einbeita sér að þeim verkefnum sem henni ber að sinna. Formaður mun starfa með skrifstofunni að því að greiða úr þeim vandamálum sem hafa komið upp í starfsemi félagsins. Þrátt fyrir þann ágreining sem ratað hefur í fjölmiðla eru stjórn og starfsfólk einhuga í því að tryggja þjónustu við félagsmenn Eflingar.”