Stjórnendafundur var haldinn á Landspítalanum í dag en um 250 stjórnendur sátu fundinn. Á fundinum voru kynntar sérstakar álagsgreiðslur sem stendur til að greiða þeim starfsmönnum sem starfa við meðferð sjúklinga með staðfest eða grun um Covid-19 smit.
Gunnar Beinteinsson, mannauðstjóri Landspítalans, segir í samtali við mbl.is að „ákall hefur verið frá starfsfólki og stéttarfélögum að sérstaklega sé greitt fyrir það álag sem meðferð sjúklinga í hlífðarbúnaði krefst.“ Spítalinn sé í raun að mæta þessu ákalli.
Þá segir hann einnig; „ákveðið hefur verið að taka til reynslu tímabundið kerfi álagsgreiðslna. Kerfið er sett upp til reynslu og gildir frá 1. nóvember síðastliðnum og felur kerfið í sér greiðslu fyrir hverja 8 klukkustunda vakt sem starfsmaður sinnir Covid-19 sjúklingi í sérstökum hlífðarbúnaði.“
Fram kemur einnig að greiðslurnar geti numið allt að 360 þúsund krónum á mánuði.