Dæmi eru um að einstaklingur hafi verið vistaður í þrjár vikur í fangageymslu lögreglunnar á Suðurnesjum vegna gruns um að vera með fíkniefni innvortis. Aðbúnaður í sérútbúnum klefa fyrir slíka vistun er þó ekki fullnægjandi til að vista fólk lengur en í sólarhring. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu umboðsmanns Alþingis um heimsókn embættisins til lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Umboðsmaður heimsótti í byrjun þessa árs fangageymslur suður með sjó og kynnti sér aðstöðu til vistunar vegna skoðunar á landamærunum. Í nýbirtum skýrslum um þessar heimsóknir eru ýmis tilmæli og ábendingar um það sem betur mætti fara og hefur umboðsmaður óskað eftir viðbrögðum frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum og dómsmálaráðuneytinu fyrir 1. mars á næsta ári.
Í skýrslunni er farið yfir að það taki almennt einn til þrjá sólarhringa fyrir mann að losa innvortis efni, en dæmi sé um að það hafi tekið 20 daga. Ef séð er fram á vistun umfram einn sólarhring er viðkomandi úrskurðaður í gæsluvarðhald og þá jafnframt í einangrun.
„Þótt að baki aðgerðum sem þessum búi sjónarmið um rannsóknarhagsmuni, öryggi og heilsu er ljóst að í þeim felst inngrip í frelsi og friðhelgi umfram venjulega einangrunarvist handtekins manns eða gæslufanga. Það vekur því upp spurningar hvort nægilegt sé að kveða á um slíkt fyrirkomulag í verklagsreglum lögreglu eins og nú er gert,“ skrifar umboðsmaður.
Rakið er að flutningur einstaklinga í innvortis málum, til að mynda í héraðsdóm eða á heilbrigðisstofnun, kalli á skoðun. Hinn handtekni þarf þá að notast við ferðasalerni í lögreglubíl og þyki sú aðgerð „almennt niðurlægjandi“. Umboðsmaður beinir þeim tilmælum til dómsmálaráðherra að taka til skoðunar hvort nauðsynlegt sé að flytja einstaklinga í dómsal, hvort hægt sé að notast við fjarfundarbúnað í staðinn.
Í skýrslu umboðsmanns er jafnframt vikið að lagastoð fyrir því að vista útlendinga, sem eru til skoðunar á landamærunum í Leifsstöð, í fangageymslum í Reykjanesbæ vegna aðstöðuleysis í flugstöðinni. Rakið er að lögreglustjóri telur styrka lagastoð vera fyrir hendi en heimildir til þess mættu vera skýrari. Dómsmálaráðuneytið telur aftur á móti að vistunin feli í sér frelsissviptingu og vafi leiki á að lagaákvæðin séu nægilega skýr grundvöllur hennar.
Umboðsmaður segir að fyrir komi að einstaklingum sé synjað um inngöngu í landið til bráðabirgða vegna skoðunar á landamærum. Eitt af því sem vakið hafi athygli í heimsóknunum tveimur var vistun þeirra í fangageymslu. Lögreglustjórinn var spurður um það hvort framkvæmdin byggði á einhverjum lagaheimildum til viðbótar við lög um útlendinga.
„Í svari lögreglustjórans kom fram að byggt væri á lögum um útlendinga og litið svo á að fyrir þessu væri styrk lagastoð. Í þeim tilvikum sem útlendingur væri vistaður í fangageymslu vegna aðstöðuleysis á flugvelli, sem lengi hefði verið bent á að væri ekki viðunandi, færi þó betur á að lagaheimildir væru skýrari,“ segir í umfjöllun umboðsmanns.
„Dómsmálaráðuneytið taldi engan vafa leika á að vistun fólks við þessar aðstæður fæli í sér frelsissviptingu og að vafamál væri að umrædd lagaákvæði teldust nægilega skýr grundvöllur hennar. Var umboðsmaður upplýstur um að framkvæmdin yrði skoðuð nánar og að jafnframt yrði hafin vinna við að meta mögulega kosti til að byggja upp aðstöðu til að vista fólk á landamærunum. Sem fyrst væri þó stefnt að því að koma upp bráðabirgðaaðstöðu,“ segir þar enn fremur.