Þegar kirkjuþingi var um miðja síðustu viku frestað fram undir lok nóvember beið fjöldi stórra mála enn afgreiðslu.
Þingið fer með æðsta vald í veraldlegum málefnum þjóðkirkjunnar. Meðal þess sem ekki tókst að afgreiða var að taka afstöðu til tillagna um stórfellda sölu á fasteignum þjóðkirkjunnar, hagræðingu í mannahaldi, starfsreglur fyrir prófasta og vígslubiskupa, stefnumótun í samskipta- og ímyndarmálum og afnám greiðslna fyrir aukaverk presta sem hér verður fjallað um.
Fram kom á þinginu að innan kirkjunnar eru skoðanir mjög skiptar um flest þessi mál. Og í umræðunum um aukaverkin varð ýmsum heitt í hamsi. Deilur um greiðslur fyrir þau eru þó ekki nýjar af nálinni enda byggir þetta fyrirkomulag á gamalli hefð.
Það sem kom umræðunni af stað að þessu sinni var tillaga frá fjórum fulltrúum á kirkjuþingi um að frá og með 1. janúar 2024 skyldi „afnumin öll gjaldtaka vegna prestsþjónustu þjóðkirkjunnar, sem tilgreind er í gjaldskrá kirkjuþings“.
Leggja flutningsmenn til að starfskostnaðarnefnd, sem kosin var á kirkjuþingi í mars, takist á hendur að vinna tillögur með hliðsjón af niðurfellingu gjaldtökunnar og skili þeim til kirkjuþings ekki seinna en fyrri hluta árs 2023. Er nefndinni ætlað að kanna sérstaklega hvort afnema megi gjaldtöku í áföngum þannig að prestsþjónusta fyrir skírnir og fermingarfræðslu verði gjaldfrjáls sem fyrst.
Eins og sjá má í töflu hér að ofan eru helstu aukaverkin, sem heimilt er að innheimta gjald fyrir, skírn, ferming, hjónavígsla og útför. Varla er þó hægt að segja að fjárhæðirnar séu mjög háar og síst í samanburði við önnur gjöld sem oft falla til við athafnir af þessu tagi, svo sem fyrir söng, tónlist, skreytingar og margvíslega þjónustu. Engu að síður telja flutningsmenn að gjöldin séu „tímaskekkja“.
Vígð þjónusta kirkjunnar eigi ávallt að vera grundvölluð á kristilegum kærleika og sem mest án hindrana fyrir fólk. Gjöldin fyrir aukaverkin séu „fráhrindandi ásýnd kirkjulegrar þjónustu“ og dragi mjög úr trúverðugleika hennar. Einkum sé þetta slæm birtingarmynd þegar um efnalítið fólk sé að ræða.
Fjölmargir áhrifamenn í kirkjunni lýstu sig andvíga því að afgreiða málið með þessum hætti á þinginu. Einkum var andstaðan hörð frá forystumönnum Prestafélagsins. Þeir bentu á að blekið væri varla þornað á síðasta kjarasamningi presta þar sem greiðslur fyrir aukaverkin eru heimilaðar.
Stjórn félagsins sagði í ályktun að það væri „í hæsta máta ósmekklegt og ekki kirkjuþingi sæmandi að væna presta um skort á kristilegum kærleika þegar þeir nýta sér grundvallaðan rétt sinn til að innheimta fyrir aukaverk“.
Þá benti stjórnin á að prestar gangi ekki hart fram í innheimtu aukaverka gagnvart efnalitlu fólki og hafi þar umhyggju og kærleika að leiðarljósi.
Á lokadegi kirkjuþings lögðu nokkrir fulltrúar til að tillögunni um afnám greiðslna fyrir aukaverk yrði vísað frá. En það átti ekki hljómgrunn á þinginu og var frávísunartillagan felld með 12 atkvæðum gegn 8.
Þingfulltrúar eru samtals 29, 17 leikmenn kjörnir af sóknarnefndum og 12 prestar. Það að frávísunin var felld er vitnisburður um að þingfulltrúar vilja ekki ýta málinu út af borðinu strax og ekki er óhugsandi að það nái fram að ganga í einhverri mynd á komandi þingi síðar í þessum mánuði.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 4. nóvember.