„Það er bara tímaspursmál hvenær þetta gerist á öllu landinu,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur um ákvörðun yfirvalda þar á Akureyri um að banna lausagöngu katta frá 1. janúar 2025.
„Það er ekki hægt að hafa þessi kvikindi valsandi út um allt,“ segir Jóhann.
Hann segir að upphaflega hafi kettir orðið húsdýr til að stöðva nagdýr sem átu korn. Það gefi augaleið að ekki sé þörf, að minnsta kosti ekki jafnmikil þörf, á því að stöðva nagdýrin með þeim hætti.
Sem fuglafræðingur fagnar Jóhann ákvörðun Akureyrarbæjar og býst við því að með þessu verði fuglar þar í bæ öruggari.
„Veiðieðlið er svo ríkt í köttum og þú eyðir því ekkert. Eina hlutverk katta, finnst mér hér á landi, er að veiða mýs.“
Spurður hvort honum þætti eðlilegt að hafa ketti utandyra í bandi segir Jóhann það eðlilegra en að þeir leiki frjálsir:
„Mér finnst út í hött að einhver húsdýr geti valsað um allt. Þetta er eins og ég væri með hest eða geit hérna í garðinum.“