Fjöldi smita rakinn til skemmtanalífsins

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rekja má smit sem greindust á Akranesi í gær til karókípartís á svæðinu. 144 innanlandssmit greindust á landsvísu í gær og tengist stór hluti þeirra og smita síðustu daga skemmtanalífinu og því að stórir hópar hafi komið saman um síðastliðna helgi, að sögn sóttvarnalæknis.

„Þetta var gríðarlegt stökk sem við sáum þarna á milli daga,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir en 91 smit greindist í fyrradag. 

Hann segir að stökkið komi honum ekki mikið á óvart en það bendi til þess að veiran sé víða í samfélaginu. 

„Mér sýnist þetta tengjast skemmtanalífinu og hópasamkomum. Fljótt á litið sýnist mér þetta tengjast einhverju karókídjammi á Akranesi, svo tengist þetta einhverju tónlistarlífi hér í Reykjavík. Svo höfum við líka séð að fólk er með einkenni en heldur sig ekki heima og nær þannig að smita út frá sér. Þetta er bara sama gamla sagan, það þarf ekki mikið til.“

Ekkert minnisblað klárt en staðan sífellt endurskoðuð

Spurður hvort ráðlegt sé að ráðast í takmarkanir innanlands vegna stöðunnar segir Þórólfur að hann eigi sífellt í samtali við heilbrigðisráðherra um stöðuna. Ekkert minnisblað um slíkt hefur þó litið dagsins ljós. Helst er horft til stöðunnar á heilbrigðiskerfinu þegar ákvarðanir um takmarkanir innanlands eru teknar. 

„Um 2% af þeim sem hafa smitast hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús alvarlega veikir. Nú liggja 16 manns á Landspítala, það eru fjórir á gjörgæslu og þar af einn á öndunarvél og einn á hjarta- og lungnavél. Svo er einn á gjörgæslunni á Akureyri á öndunarvél. Við sjáum þetta gerast hægt og bítandi. Ef kúrvan fer ekki niður, ef smitum fer ekki að fækka bætist bara í þennan hóp því þetta fólk sem er á spítala liggur þar inni kannski einhverjum vikum saman. Þannig að þetta er ekki eins og fólk sé að fara út strax. Sem betur fer virðast þeir sem eru bólusettir vera fljótari að hrista þetta af sér og útskrifast. Það hjálpar mjög mikið til,“ segir Þórólfur. 

Hann bendir á að nú sé staðan þannig að um tveir þurfi að leggjast inn á spítala vegna Covid-19 daglega. Ef smitum fjölgar verulega, fara t.d. upp í 200 á dag er útlit fyrir að fjórir þurfi að leggjast inn daglega. 

Skemmtanalífið hefur farið hratt af stað á síðustu vikum eftir …
Skemmtanalífið hefur farið hratt af stað á síðustu vikum eftir að takmarkanir á því voru minnkaðar. mbl.is/Ari

Þriðji skammturinn bráðlega í boði fyrir alla

Þórólfur tekur fram að staðan hér á landi sé ekki einstök, uppsveiflur hafi verið í faraldrinum í nágrannalöndum Íslands. T.a.m. hafi um 2.000 smit greinst daglega í Danmörku að undanförnu og þá er faraldurinn einnig í vexti í Noregi. Jafnframt er neyðarástand í Rúmeníu þar sem flytja hefur þurft gjörgæslusjúklinga á milli landa. 

„Við viljum náttúrulega ekki lenda í einhverjum mjög slæmum málum. Þá er bara eitt að gera, við verðum að reyna að bæla kúrvuna niður. Svo þurfum við líka að hugsa um það hvort við getum bætt ónæmið í samfélaginu með því að gefa þennan þriðja skammt af bóluefninu,“ segir Þórólfur. 

Slík bólusetning er hafin fyrir fólk sem er eldra en 60 ára, fólk með undirliggjandi sjúkdóma og framlínustarfsfólk. 

„Við höfum fullan hug á því að bjóða öllum almenningi þriðja skammtinn og vonandi munu allir þiggja það því þær rannsóknir sem liggja fyrir, til dæmis frá Ísrael, benda til þess að þrír skammtar séu mun betri en tveir í því að koma í veg fyrir smit og alvarleg veikindi þannig að ég held að það sé til mikils að vinna.“

Þórólfur ráðleggur fólki að huga að persónubundnum sóttvörnum og halda sig heima og fara í sýnatöku ef það finnur til einkenna.

„En tilmæli um einstaklingsbundnar sóttvarnir virðast ekki duga til að bæla faraldurinn niður. Fólk er enn að hópast saman, er á djamminu og gleymir sér. Þá aukast þessar smitlíkur verulega.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert