Árleg sala Neyðarkalls björgunarsveitanna hófst formlega í dag úti fyrir Reykjavíkurhöfn, þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók þátt í æfingu á sjó með þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Guðni var hífður frá borði í björgunarskipinu Ársæl og um borð í TF-Gná síðdegis í dag, til þess að vekja athygli á fjáröfluninni.
Það var vel við hæfi þar sem Neyðarkallinn í ár er sjóbjörgunarmaður í gulum skrúða.
„Þetta var ljúf sigling, ekki síður ferðin upp í þyrluna, að vera hífður þarna upp af vönu fólki og þaulreyndu. Og það sem situr eftir er bara öryggistilfinning og ánægja yfir því að vita að við eigum allt þetta frábæra fólk hjá Gæslunni, í björgunarsveitunum. Nú bara hvet ég öll sem geta að styrkja starf björgunarsveitanna með því að kaupa Neyðarkall, úr endurunnu plasti, og sýna það í verki líka að við kunnum vel að meta störf þessa fólks,“ sagði Guðni við mbl.is þegar í land var komið.
Guðni segir brýnt að landsmenn taki þátt í fjáröfluninni, enda sé hún hryggjarstykki starfsemi björgunarsveita og tryggir aðbúnað þeirra sem „kasta öllu frá sér og henda sér út í óvissuna til þess að bjarga þeim sem eru hjálparþurfi“, eins og hann orðar það.
Og forsetinn fer ekkert með fleipur þegar hann talar um mikilvægi Neyðarkallsins. Undir þau orð tekur Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjörg, og segir að björgunarsveitirnar gætu ekki án fjáröflunarinnar verið.
„Kostnaðurinn við Kallinn er ekki mikill, en allur ágóði rennur óskiptur til félagseininganna,“ segir Otti.
En í hvað fara peningarnir, hvað er efst á baugi núna?
„Peningarnir fara auðvitað bara beint í að reka björgunarsveitirnar. Til þess þurfum við eldsneyti og við þurfum að þjálfa fólkið okkar, svo það sé sem best búið þegar kallið kemur. Svo þarf auðvitað að kaupa alls kyns tæki og tól og uppfæra það sem fyrir er.“
Sala Neyðarkallsins hófst í dag, eins og áður segir, og má því búast við sjá sölufólk björgunarsveitanna við anddyri stórmarkaða á næstu dögum.