Unnið er að byggingu fjölda húsa í Húsafelli í Borgarfirði. Þar hefur verið skipulagt hverfi með 54 íbúðarhúsum, ofan við núverandi orlofsbyggð. Unnið er að breytingum á skipulagi svæðisins þannig að húsin verða í íbúðabyggð í stað orlofsbyggðar. Getur fólkið, það sem vill, því verið þar með heilsársbúsetu og skráð lögheimili og fengið þjónustu eins og aðrir íbúar sveitarinnar.
Félagið Húsafell-Hraunlóðir stendur fyrir framkvæmdum. Fjórtán lóðir eru seldar einstaklingum en landeigandinn byggir sjálfur hús á 40 lóðum og selur á ýmsum byggingarstigum. Bergþór Kristleifsson, eigandi Húsafells, segir að búið sé að selja 35 af þessum 40 húsum.
Á þriðja tug iðnaðarmanna úr Borgarfirði og víðar að vinna við að taka grunna, steypa undirstöður, smíða hús og reisa. Segir Bergþór að eftir áramót, þegar fleiri hús verða risin og hægt verði að koma fleiri höndum að, muni fjölga enn frekar í liðinu.
Bergþór segir að húsin sem hann byggir sjálfur séu á opnu svæði þar sem betur fari á því að hafa húsin samstæð. Þess vegna hafi hann ráðist í að láta hanna hús af þremur stærðum og byggja. Húsin eru smíðuð í einingum í verksmiðjuhúsi á staðnum og reist jafnóðum. Þegar eru 10 hús risin. Flestir kaupendurnir kjósa að kaupa húsin fullfrágengin.
Allar gerðir húsanna eru vistvænar og uppfylla allar kröfur sem gerðar eru til íbúðarhúsa. Minnsta húsið er 88 fermetrar en hægt að stækka það í 108 fermetra með gestahúsi. Stærri húsin eru tæpir 140 metrar að stærð, ýmist á einni hæð eða tveimur.
Bergþór segir að kaupendurnir séu gjarnan fólk á miðjum aldri sem sé á góðum stað í lífinu og hafi efni á að eiga vandaðan sumarbústað sem það geti búið í mikinn hluta ársins. Einhverjir hugsi sér að eiga þar heima.