Mannekla, þreyta og húsnæðisskortur

Rýmin eru í dag 640 talsins.
Rýmin eru í dag 640 talsins. mbl.is/Unnur Karen

Í tilkynningu farsóttanefndar Landspítalans, sem birt var á þriðjudag í kjölfar gagnrýni Svanhildar Hólm, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, sagði að ríflega 900 legurými hefðu verið á Landspítala árið 2009 þegar svínaflensufaraldurinn geisaði hér á landi.

Rýmin eru í dag 640 talsins. Í nýju svari spítalans við fyrirspurn mbl.is segir að það stafi af manneklu og húsnæðisskorti.

Í fyrirspurn mbl.is var bent á það að í tilkynningu farsóttanefndar komi fram að ríflega 900 rúm hafi verið á Landspítala árið 2009. En samkvæmt uppgjöri starfsemisupplýsinga LSH árið 2009 var meðalfjöldi inniliggjandi legusjúklinga á dag verið 594.

Var því spurt hvort ætla mætti að samkvæmt tilkynningunni hefðu rúmlega 300 rúm staðið auð það árið.

Nefndin hafði útlistað það helsta sem hef­ur breyst frá ár­inu 2009, sem gert hafi það að verk­um að áhrif far­ald­urs Covid-19 séu um­tals­vert meiri en áhrif far­ald­urs svínaflens­unn­ar fyr­ir tólf árum. Legurými voru þá 260 færri en þau eru í dag, árið 2009 voru 285 rúm á hverja 100.000 íbúa og 18 gjörgæslurými. Í dag eru rúmin 175 á hverja 100.000 íbúa og gjörgæslurýmin 14.

Ekki sé starfsfólk til að sinna fleiri sjúklingum

Í nýja svarinu kemur fram að í tilkynningu farsóttanefndar sé verið að tala um fjölda allra mögulegra rúma í alvarlegu hættuástandi. Það sé mat farsóttanefndar á hve mörg séu til staðar, auk þeirra rúma sem hægt væri að opna á til viðbótar.

„Árið 2009 var mannekla ekki vandamál, enda bæði meira húsnæði og mönnun til staðar. Þetta svigrúm var því  raunverulega til staðar og hægt hefði verið að manna viðbætur á rúmum. Það er ekki staðan núna,“ segir í svari spítalans.

Þá segir að nú sé annað ástand á spítalanum en var árið 2009, skömmu eftir hrun. Mannekla sé vandamál og mikil þreyta hjá starfsmönnum eftir langvinnan faraldur. Þá er einnig bent á að margvíslegar breytingar hafa verið gerðar á húsnæði þannig að svigrúm til fjölgunar rúma sé afar lítið í Covid-19 faraldrinum.

„Það er til áætlun um mögulega fjölgun gjörgæslurýma í hættuástandi úr 14 í 18 en ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að fjölga legurýmum að neinu marki vegna þess að ekki er starfsfólk til að sinna þeim sjúklingum. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert