Óttast að félagsmenn líði fyrir deilur

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir það enga tilviljun að trúnaðarmenn …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir það enga tilviljun að trúnaðarmenn njóti sérstakrar verndar. Ljósmynd/Aðsend

Drífa Snædal, forseti ASÍ, hefur áhyggjur af því að félagsmenn Eflingar líði fyrir innanhúsdeilur starfsmanna og stjórnenda félagsins, en ASÍ aðstoðar nú félagið við að vera starfshæft.

„Það er mjög erfitt ástand eins og allir hafa orðið áskynja. Áhyggjur mínar mínar felast helst í því að þjónusta við félagsmenn líði fyrir. Við erum að reyna að koma í veg fyrir að það gerist,“ segir Drífa í samtali við mbl.is

Drífa segir deilurnar innan Eflingar margslungnar en hún ætli sér ekki að stíga inn í þær sem fulltrúi einhvers.

„Staðan er þannig núna að við erum að einbeita okkur að því að aðstoða Eflingu við að vera starfhæft. Við erum að bíða eftir niðurstöðu stjórnar Eflingar um formannsskipti. Við erum bara að vinna inn á við.“

Engin tilviljun að trúnaðarmenni njóti verndar

Trúnaðarmenn Eflingar hafa verið gagnrýndir opinberlega, bæði af Sólveigu Önnu Jónsdóttur, fyrrverandi formanni félagsins, og Viðari Þorsteinssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra, fyrir ályktun sem þeir sendu stjórnendum í byrjun sumars. Þar var vanlíðan og upplifun starfsmanna á skrifstofunni lýst. Viðar hefur sagt framgöngu trúnaðarmanna í málinu óverjandi.

Spurð hvort henni þyki eðlilegt að trúnaðarmenn starfsmanna Eflingar séu gagnrýndir opinberlega í fjölmiðlum með þessum hætti, segir Drífa: „Störf trúnaðarmanna eru afskaplega mikilvæg á öllum vinnustöðum. Það skiptir máli að efla trúnaðarmenn og styðja þá í sínum störfum. Það er engin tilviljun að trúnaðarmenn njóta sérstakrar verndar í kjarasamningum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert