Sakar Sólveigu og Viðar um einelti og ofbeldi

Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson.
Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Christina Milcher, fyrrverandi starfsmaður félagssviðs Eflingar, er harðorð í garð Sólveigar Önnu Jónsdóttur, fráfarandi formanns félagsins, og Viðars Þorsteinssonar, fráfarandi framkvæmdastjóra.

Í opnu bréfi til þeirra lýsir hún því hvernig þau beittu hana einelti á vinnustað og ráku hana fyrirvaralaust fyrir að segja stjórnarmönnum í félaginu frá ástandinu.

Meðal þess sem Christina lýsir er þegar Berglind Rós Gunnarsdóttir, mannauðsstjóri Eflingar, öskraði á hana og annan starfsmann Eflingar á fundi þeirra, svo heiftarlega að tár féllu.

Í kjölfar þess eiga stjórnendur Eflingar svo að hafa hvatt starfsfólk félagsins til þess að sniðganga Christinu og halda henni úti á ísnum, eins og hún orðar það sjálf. Þetta reyndi hún að ræða við Sólveigu Önnu.

Sólveig og Viðar séu ekkert skárri en yfirmenn sem kúga starfsfólk

Christina segir að Sólveig hafi loks fengist til þess að ræða málið um viku eftir að meint einelti hófst en að hún hafi strax tekið að hegða sér eins og yfirmaður sem brýtur á starfsfólki sínu. Hún hafi sagt að hún væri fórnarlambið og þolandinn í málinu, af því að hún, manneskjan með öll völdin, sætti gagnrýni fyrir þá ofbeldishegðun sem hún á að hafa gerst sek um.

Christina segist ekki skilja hvers vegna eineltið hófst, það hafi verið svo fyrirvaralaust og ástæðulaust, að því hún telur. Hvað svo sem það var þá helst, segir Christina að hún nái ekki utanum af hverju allt það fólk, þeir erlendu verkamenn sem stóðu við hlið þeirra í verkfallsaðgerðum, sé nú orðið óvinir í augum Sólveigar og Viðars.

„Þið dragið upp þá mynd af sjálfum ykkur að þið séuð hin undirokuðu sem berjist gegn fólki í valdastöðum, en þegar þið komust til valda sjálf hófuð þið að sýna af ykkur sömu ofbeldishegðun. Þið eruð ekki fórnarlömbin hér. Þið eruð bara enn ein sagan af yfirmönnum að brjóta gegn verkafólki,“ segir Christina við Sólveigu og Viðar.

Þrátt fyrir þetta segir Christina, undir lok opins bréfs síns, að ekki sé öll von úti. Enn sé sægur fólks innan Eflingar sem er tilbúinn til þess að vinna í þágu verkalýðsins, í þágu erlends vinnufólks og í þágu kvenna í láglaunastörfum – stéttarfélag sé ekki bara stjórnandi þess og ekkert annað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert