Bandarísk kona, sem búsett er á Íslandi, segir farir sínar ekki sléttar af bráðamóttökunni í Fossvogi. Kærasta hennar, sem leitaði hafði á bráðamóttökuna vegna meiðsla, hafi í tvígang verið vísað frá áður en hann fékk loks viðeigandi aðstoð.
Jessica Ritchie segir kærasta sinn hafa fallið af rafskútu um miðjan október og við það hlotið meiðsl á hendi. Hann grunaði að hann gæti verið handleggsbrotinn og Jessica segir parinu þá hafa verið ráðlagt að leita á bráðamóttökuna til að fá röntgenmynd af hendinni. Þegar þangað var komið hafi þeim hins vegar verið snúið strax við í dyrunum.
„Það var einhver starfsmaður sem stóð þarna við innganginn, svolítið eins og dyravörður, sem spurði okkur hvers vegna við værum að leita á bráðamóttöku. Þegar við útskýrðum það fyrir honum sagði hann kærasta mínum að koma aftur eftir viku ef hann fyndi ennþá til í hendinni,“ segir Jessica, í samtali við mbl.is.
Kærastinn hafi þá ætlað að yfirgefa bráðamóttökuna en Jessica vildi vita hvers vegna hann gæti ekki fengið þjónustu þann daginn.
„Starfsmaðurinn sagði þá að hann gæti þurft að bíða mjög lengi eftir því að fá þjónustu og að það væri sennilega að betra fyrir hann að koma einhvern tímann seinna.“
Nokkrum dögum síðar hafi kærasti Jessicu ákveðið að leita aftur á bráðamóttökuna þar sem hann fann enn til í hendinni. Þar hafi honum þó enn og aftur verið vísað á dyr.
„Að sögn föður míns, sem er sjálfur læknir, aukast líkurnar á því að framkvæma þurfi skurðaðgerð því lengur sem beðið er með að meðhöndla beinbrot. Í ljósi þess þótti okkur viðmótið sem mættum á bráðamóttökunni afar einkennilegt,“ segir Jessica.
Hann hafi svo leitað í þriðja skiptið á bráðamóttökuna í gær og loks fengið viðeigandi aðstoð.
„Þá kom í ljós að hann var handleggsbrotinn eins og við héldum. En brotið var meðhöndlað og kærastinn minn fékk bókaðan endurkomutíma hjá lækni síðar. Þannig þetta er allt í rétta átt núna.“
Jessica segir þau parið meðvitað um að mikið álag sé á bráðamóttökunni um þessar mundir og að móttökustarfsmaðurinn hafi aðeins verið að vinna vinnuna sína. Þau hafi því ekkert sérstakt við hann að sakast.
„Ég geri ráð fyrir því að það sé mikið álag á starfsfólki bráðamóttökunnar núna vegna kórónuveirufaraldursins og þau undirmönnuð, eftir því sem ég hef heyrt, en það dregur úr manni að þurfa sífellt að ganga á eftir því að fá viðeigandi læknisaðstoð og fá hana ekki.“
Eftir á að hyggja hefði parið viljað fá betri upplýsingar um það hvort þau gætu leitað eitthvað annað eftir læknisaðstoð í þessu tilfelli og þá hvert, að sögn Jessicu.
„Í bæði skiptin var okkur bara sagt að fara og koma aftur seinna. Okkur leið eins og við værum ekki velkomin. Það hefði verið betra ef einhver hefði bent okkur á að við hefðum aðra valmöguleika eins og að fara á Læknavaktina eða á Heilsugæsluna.“
Þá segir hún upplýsingagjöf um heilbrigðisþjónustu á Íslandi almennt ekki vera nógu aðgengilega fyrir útlendinga.
„Ef það væri ekki fyrir kærastann minn og íslenska vini mína þá myndi ég ekkert vita hvar ég gæti leitað upplýsinga um þetta. Fyrsta árið mitt á Íslandi hafði ég til dæmis ekki hugmynd um að Heilsuvera væri til. Það er nógu erfitt að vera útlendingur í nýju landi og tala ekki móðurtungumálið. Ég myndi hreinlega ekki vita hvar ég ætti að byrja. Það eru svo margir mismunandi möguleikar eins og hverfisheilsugæslurnar, en ég þekki ekki muninn á þeim og veit ekki af hverju ég ætti að velja eina þeirra yfir aðra.“
Aðspurð segir Jessica parið ekki hafa lagt inn formlega kvörtun vegna málsins ennþá. Þau vilji frekar bíða og sjá hvernig framhaldið verður.
„Ég er hikandi við að rugga þeim báti, því ég er augljóslega ekki héðan sjálf og vil ekki að það líti út eins og ég sé vanþakklát fyrir það sem ég hef. Ég elska Ísland og upplifun mín af íslenska heilbrigðiskerfinu hefur heilt yfir verið góð, þó það hafi komið upp einstaka tilvik sem eru ekki eins góð. Fyrr á árinu leitaði ég sjálf á bráðamóttökuna vegna taugaskaða og krónískra verkja í hálsi en fékk enga aðstoð þar sem ástand mitt þótti ekki nógu alvarlegt.“