Aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar hefur ákveðið að leggja niður skólahald í skólunum Sólborg og Sandgerðisskóla fram yfir helgi, vegna smita sem greindust á meðal starfsfólks skólanna.
Þetta segir í tilkynningu frá bæjarfélaginu.
Leikskólinn mun vera lokaður á meðan smitrakning stendur yfir og þar til „tekist hefur að ná utan um ástandið“. Að auki mun skólahald í Sandgerðisskóla falla niður á morgun, föstudag.
Aðrar stofnanir í Sandgerði sem verða lokaðar fram yfir helgi eru íþróttamiðstöðin, tónlistarskólinn, bókasafnið og mun félagsmiðstöðin Skýjaborg vera lokuð „þar til annað verður ákveðið“.
„Aðgerðastjórn vonast til að sem fæstir íbúar Suðurnesjabæjar verði fyrir barðinu á veirunni þessa dagana, en staðreyndin er sú að veiran er komin inn í samfélagið okkar og því er nauðsynlegt að beita aðgerðum.“
Þá verður staðan metin að nýju í upphafi næstu viku og eru íbúar Suðurnesjabæjar hvattir til að fylgjast með heimasíðu bæjarins sem og samfélagsmiðlum.