Spurning „hvað muni verða um þessa ketti“

„Sumir kettir munu alveg venjast þessu en maður veit um …
„Sumir kettir munu alveg venjast þessu en maður veit um ketti sem munu aldrei sætta sig við þetta, og það er spurningin hvað muni verða um þessa ketti,“ segir Ragnheiður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnheiður Gunnarsdóttir, sem rekur kattaathvarfið Kisukot á Akureyri, er óánægð með ákvörðun yfirvalda þar í bæ um að banna lausagöngu katta frá 1. janúar 2025 og aðgerðaleysi í málaflokknum undanfarin ár, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Hún tekur það fram að hún hafi ekkert á móti því að fólk haldi inniketti ef það hefur möguleika á því en það séu ekki allir kettir sem geti verið innikettir. „Það eru þeir kettir sem ég hef áhyggjur af. Maður hefur oft heyrt um ketti sem á að halda inni en mótmæla þessari inniveru, pissa til dæmis inni.“

Þessi þriggja ára frestur dugir skammt fyrir þá útiketti sem verða enn á besta aldri árið 2025. „Sumir kettir munu alveg venjast þessu en maður veit um ketti sem munu aldrei sætta sig við þetta, og það er spurningin hvað muni verða um þessa ketti.“

Ragnheiður tekur undir það sem kom fram í bókun Hildu Jönu Gísladóttur um að frekar ætti að takmarka lausagöngu á nóttunni og á varptíma fugla. „Mér finnst alveg sjálfsagt að kattaeigendur geri það.“ Henni finnst hins vegar gróft að ætla að banna lausagönguna alfarið og segist ekki vita hvernig farið verði að því að framkvæma þetta.

Ragnheiður er gagnrýnin á frammistöðu bæjaryfirvalda í kattamálum undanfarin ár. Hún segist hafa fengið upplýsingar um að engir kettir hafi komið í dýrageymslu Akureyrarbæjar síðan 2017.

„Dýraeftirlitsmaður á að fanga þau dýr sem eru á vergangi en það hefur ekki einn einasti köttur komið í þessa geymslu. Ég er búin að vera að þessu í næstum tíu ár og er búin að taka hundruð katta af götunum. Ég hvet bæjarstjórnina til þess að íhuga að styðja þá sem eru að gera eitthvað fyrir ketti í bænum í stað þess að fara í boð og bönn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert