Styttu röðina niður í ekki neitt á 2,5 tímum

Mikill fjöldi mætti í sýnatöku á Suðurlandsbraut í morgun.
Mikill fjöldi mætti í sýnatöku á Suðurlandsbraut í morgun. mbl.is/Auðun

Mikill fjöldi fólks mætti í kórónuveiruhraðpróf á Suðurlandsbraut í morgun og vann starfsfólk heilsugæslunnar sleitulaust í um tvo og hálfan tíma við að klára að skima röðina af fólki sem mætti nánast allt á sama tíma. Sífellt bættist í röðina en að lokum tókst að stytta hana niður í ekki neitt fyrir hádegi í dag. 

„Við höfum nú oft séð lengri raðir en þetta,“ segir Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. „Það komu allir á sama tíma en við reyndum bara að vinna hratt.“

Hraðpróf ekki fyrir fólk með einkenni

Fólk sem mætir í hraðpróf kemur þangað af ýmsum ástæðum, ef það hefur verið í smitgát, er á leið á stóran viðburð eða er nýkomið heim frá útlöndum. Ingibjörg tekur skýrt fram að fólk eigi ekki að taka hraðpróf eða heimapróf ef það er með einkenni Covid-19 en borið hefur á misskilningi um það.

„Það er líka gríðarlega mikilvægt að þegar fólk er með einkenni fari það ekki í hraðpróf eða heimapróf heldur PCR-próf, þ.e. einkennasýnatöku, og haldi sig heima þar til niðurstaða berst. Veiran er mjög víða og með því að gera þetta svona drögum við úr líkunum á því að fólk haldi áfram að smita frá sér ef það er smitað.“

Smitum hefur fjölgað í samfélaginu á síðustu dögum og segir Ingibjörg að starfsfólk skimunar á Suðurlandsbraut finni fyrir auknu álagi í takt við vaxandi smitfjölda.

Frá biðröð í hraðpróf í morgun.
Frá biðröð í hraðpróf í morgun. mbl.is/Auðun
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert