Samhliða innleiðingu Strætó á nýja rafræna greiðslukerfinu KLAPP, þann 16. nóvember, mun fyrirtækið einnig gera breytingar á gjaldskrá. Fram kemur í tilkynningu að markmið breytingarinnar sé fyrst og fremst til þess að einfalda gjaldskrána og gera öllum kleift að kaupa mánaðarkort á hagstæðu verði.
Í tilkynningu segir að ungmenni, aldraðir og nemar eigi rétt á fimmtíu prósenta afslætti og að öryrkjar eiga rétt á sjötíu prósenta afslætti af almennum fargjöldum. Þá munu börn yngri en 11 ára fá að ferðast frítt með Strætó.
Engin breyting verður gerð á stöku fargjaldi fyrir fullorðna, það verður áfram 490 krónur.
Einnig verður engin breyting gerð á árskorti fyrir fullorðna en mánaðarkortin munu lækka úr 13.300 kr. í 8.000 kr.
Stakt fargjald fyrir öryrkja lækkar úr 245 kr. niður í 170 kr. Við breytinguna opnast möguleiki fyrir öryrkja að kaupa mánaðarkort á 2.400 kr. en í dag geta öryrkjar eingöngu keypt árskort á afslætti. Þá mun árskort öryrkja lækka um 1.000 kr. og mun því kosta 24.000 kr. í stað 25.000 kr.
Við breytinguna opnast sá möguleiki fyrir aldraða að kaupa mánaðarkort á 4.000 kr. en áður var eingöngu afsláttur af árskorti.
Fram kemur að frá og með 1. mars 2022, verður ekki lengur hægt að greiða með farmiðum um borð í Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Gefinn verður frestur til 16. mars 2022 til þess að skipta öllum gömlum farmiðum yfir í inneign í KLAPP greiðslukerfinu.
Handhafar tímabilskorta í gamla greiðslukerfi Strætó skulu leyfa gildistíma kortanna að renna út áður en skipt er yfir í KLAPP greiðslukerfið.