Líklegt er að hátt í tonn af lauk fari í jólasíldina sem verið er að vinna hjá Vinnslustöðinni í Eyjum. Mörgum finnst síld ómissandi í aðdraganda jóla og nokkur þeirra fyrirtækja sem veiða og vinna síld verka nokkurt magn sérstaklega fyrir jólin. Hjá Vinnslustöðinni verður síld sett í um 1.300 fötur fyrir jólasíldarvini eins og það er kallað á heimasíðu fyrirtækisins.
Hjá Vinnslustöðinni eru verkuð um 2,5 tonn af jólasíld í ár, nokkru meira en í fyrra. Síldarbitarnir liggja í edikspækli fyrstu vikurnar og hrært er í körunum á nóttu sem degi, allt að fjórum sinnum á sólarhring. Heitið er góðum árgangi.
„Nú blasir við að vigta síldina í fötur með sykurlegi, kryddblöndu, lárviðarlaufi og lauk. Meira færðu ekki að vita enda hvílir leynd yfir uppskriftinni. Þetta er mikil vinna en jólasíldinni fylgir alltaf stemning. Í fyrra skárum við niður 720 kg af lauk og enn meiri laukskurður bíður okkar í ár,“ er haft eftir Ingigerði Helgadóttur, flokksstjóra í uppsjávarvinnslunni, á heimasíðunni, en hún hefur umsjón með jólasíldinni.