Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur hafnað ósk þess efnis að heimilt verði að reisa húsnæði undir matvöruverslun á lóð vöruhúss Bauhaus að Lambhagavegi 2-4. Breyta þyrfti aðalskipulagi til að þau áform næðu fram að ganga.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Lambhagavegur fasteignafélag ehf. fól lögfræðiskrifstofunni Landslögum að senda skipulagsfulltrúa fyrirspurn vegna tillögu um breytingu á skipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030. Félagið er eigandi fasteignarinnar að Lambhagavegi 2-4. Félagið hefur unnið að hugmyndum um 3-4.000 fermetra stakstæða byggingu gegnt núverandi verslun Bauhaus fyrir dagvöru- og þjónustustarfsemi á lóðinni, þar sem yrði 1.500 fm. matvöruverslun og fleiri verslanir.
Mjög gott aðgengi bíla og gangandi verði að matvöruversluninni frá fyrirhuguðum íbúðahverfum sunnan við Lambhagaveg 2-4. Þannig sé lóðin vel tengd skilgreindum borgargötum á svæðinu, stofnstígum hjóla og gangandi vegfarenda.
Með fyrirspurninni er óskað eftir afstöðu til beiðni um breytingu á aðalskipulagi á þann veg að rekstur matvöruverslunar á lóðinni við Lambhagaveg 2-4 verði heimilaður. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin skilgreind sem „Miðsvæði – M9“. Svæðið er jafnframt skilgreint sem þróunarsvæði, Þ101, þar sem einkum er gert ráð fyrir rýmisfrekri verslun, heildsölu, þjónustu og léttum iðnaði. Í greinargerð aðalskipulags kemur fram að nýjar matvöruverslanir séu ekki heimilaðar á svæðinu. Tilgangur þessa er stefna Reykjavíkurborgar að festa í sessi og tryggja betur stöðu verslunar og þjónustu innan hverfa. Gengur stefnan í aðalskipulaginu undir heitinu „kaupmaðurinn á horninu“.