Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í 14 mánaða fangelsi fyrir ítrekaðan þjófnað úr verslunum og frá þjónustuaðilum í Múlahverfi og í Skeifunni. Við ákvörðun dómsins er meðal annars horft til þess að hann braut skilorð vegna dóms sem hann hlaut fyrr sama ár og brotin áttu sér stað.
Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur að maðurinn hafi í þrettán skipti frá í ágúst 2020 til janúar á þessu ári stolið fjármunum frá verslunum og af hárgreiðslustofu. Braust maðurinn meðal annars fjórum sinnum inn á sömu hárgreiðslustofuna og hafði í hvert skipti á brott með sér 10-15 þúsund krónur. Þá fór hann einnig tvisvar inn í sömu tvær verslanirnar og nokkrum sinnum braust hann í stakt skipti inn í aðrar verslanir.
Mesta upphæð sem hann náði í einu innbroti var 190 þúsund krónur, en í flestum tilfellum náði hann 10-15 þúsund krónum í reiðufé, jafnvel lægri upphæð.
Fram kemur í dóminum að maðurinn eigi að baki langan sakaferil og hafi margítrekað verið dæmdur fyrir auðgunarbrot. Síðast hlaut hann hálfs árs dóm um mitt ár 2020 m.a. fyrir þjófnað. Þá áður fékk hann árs dóm í lok árs 2017, m.a. fyrir þjónað. Í júlí í fyrra fékk maðurinn reynslulausn í eitt ár af eftirstöðvum refsingar fyrri dóma.
Sem fyrr segir taldi dómurinn rétt að dæma manninn í 14 mánaða fangelsi og til að greiða 186 krónur í bætur.