„Ágætar vonir“ en undir þjóðinni komið

Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller á blaðamannafundi í …
Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir persónubundnar sóttvarnir „skipta öllu máli“ en fólk hafi greinilega verið farið að slaka á sínum sóttvörnum, veldisvöxtur síðustu daga sýni það svart á hvítu.

Fyrr í dag var greint frá því að ólíklegt þætti að nýkynntar takmarkanir myndu skila miklum árangri miðað við minnisblað hans til heilbrigðisráðherra.

Spurður hvort hann telji að aðgerðirnar dugi segist hann hafa „ágætar vonir“, það sé aftur á móti undir þjóðinni komið.

„Allt fer þetta auðvitað eftir því hvernig er farið eftir þessum leiðbeiningum og þessum tillögum sem koma þar fram,“ segir hann.

Áhersla sé einnig á notkun hraðprófa á stærri viðburðum.

„En auðvitað vitum við það að því harðari sem aðgerðirnar eru, því meiri árangur.“

Reglur skipta ekki máli ef fólk fer ekki eftir þeim 

Þórólfur segir að heilbrigðisráðherra hafi valið að fara samblöndu af fyrri tillögum og reglugerðum frá því í sumar.

„Það í rauninni skiptir engu máli hvaða reglur eru í gangi ef að menn fara ekki eftir og hugsa ekki vel um sínar eigin sóttvarnir,“ segir Þórólfur.

„Við erum að sjá það, því miður, að það hefur ekki dugað að höfða bara til fólks um einstaklingsbundnar sóttvarnir. Það hefur ekki dugað, heldur þvert á móti erum við að sjá þennan veldisvöxt núna,“ segir Þórólfur og bætir við að því þurfi að grípa til takmarkana, sem eru síðasta úrræðið.

„Við þurfum bara að sjá hverju þetta skilar okkur núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert