„Það er ekki nokkur spurning að fólk á að þiggja bólusetningu. Við sjáum að bólusetning er svona 50% virk við að koma í veg fyrir smit og við náum ekki hjarðónæmi með henni. Engu að síður er hún áhrifarík við að hindra smit og sérstaklega að koma í veg fyrir alvarleg veikindi. Þetta sýna tölur erlendis frá sem passa við okkar tölur sem sýna þetta mjög glöggt,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við Morgunblaðið.
Alls hafa um 7.400 manns greinst hér á landi með Covid-19 frá 1. júlí þegar Delta-afbrigðið fór að breiðast út. Af þeim sem greindust voru 59% fullbólusett og um 40% óbólusett. Á þessu tímabili hafa 159 manns þurft að leggjast inn á Landspítalann eða Sjúkrahúsið á Akureyri. Af þeim voru 56% fullbólusett. Inn á gjörgæslu þessara sjúkrahúsa lögðust 33 sjúklingar og var um helmingur þeirra fullbólusettur. Hafa 17 þurft að fara á öndunarvél og af þeim voru 45% fullbólusett. Fjórir hafa látist á þessu tímabili og voru tveir fullbólusettir.
Gott er að hafa í huga að búið er að fullbólusetja 89% landsmanna 12 ára og eldri, samkvæmt covid.is. Það þýðir að um 11% landsmanna 12 ára og eldri eru óbólusett.
Þórólfur segir því haldið fram að það að um og yfir helmingur þeirra sem veikjast sé bólusettur sýni að bólusetning geri ekkert gagn. Hann bendir á að nýgengi smita hjá óbólusettum sé þrisvar sinnum hærra heldur en hjá bólusettum. Þá eru fimmfalt meiri líkur á því að óbólusettir þurfi að leggjast á spítala vegna Covid-19 en fullbólusettir.
„Ef við reiknum líkurnar á að þurfa að leggjast á gjörgæslu vegna Covid-19 hjá bólusettum og óbólusettum þá er nýgengi hjá óbólusettum sex sinnum hærra en hjá bólusettum,“ segir Þórólfur.
Hann segir þessar tölur sýna að miklu meiri líkur séu á að óbólusettir smitist af Covid-19 en fullbólusettir. Sjúkdómurinn verði alvarlegri hjá þeim óbólusettu og leiði til fleiri innlagna á sjúkrahús og gjörgæslu en hjá fullbólusettum.
„Enda segja smitsjúkdómalæknar að jafnvel þótt fullbólusettir leggist inn á spítalann þá séu þeir fljótari að jafna sig og útskrifist fyrr heldur en þeir sem eru óbólusettir,“ sagði Þórólfur.