Þörf er á átaki í rafrænni skjalavörslu prestakalla og auka þarf leiðbeiningar til presta um hvernig megi betur standa að skjalavörslu og skjalastjórn, samkvæmt niðurstöðum úr nýrri skýrslu Þjóðskjalasafns Íslands um skjalavörslu og skjalastjórn prestakalla.
Þetta kemur fram í tilkynningu Þjóðskjalasafns.
Þjóðskjalasafn og Biskupsstofa hafa unnið saman undanfarið til að efla skjalavörslu og skjalastjórn prestakalla.
„Skjalasöfn prestakalla eru mikilvægar heimildir um starfsemi þjóðkirkjunnar, íbúa og byggð í landinu í gegnum aldir,“ segir í tilkynningunni.
Í könnuninni sem lögð var fyrir 70 prestaköll voru 39 spurningar lagðar fyrir í átta hlutum. Bárust alls svör frá 47 prestaköllum.
Niðurstöður benda til þess að um 70% prestakalla skrá ekki niður erindi sem þeim berast. Þarf því að efla skráningu og utanumhald erinda. Í vörslu prestakalla eru nú um 85 hillumetrar af pappírsskjölum sem komin eru á afhendingartíma og skila þarf til Þjóðskjalasafns til varðveislu.
Þá er átaks talið þörf í vörslu rafrænna gagna en ekkert prestakall virðist nota rafrænt gagnasafn, og er varðveisla tölvupósts einnig ábótavön. Telja prestaköll skort á leiðbeiningum og frekari ráðgjöf um skjalavörslu og skjalastjórn.
Mun skýrslan verða notuð til grundvallar í samantekt sérstakra og handhægra leiðbeininga um skjalavörslu og skjalastjórn prestakalla þar sem markmiðið verður að miðla betur upplýsingum um hvernig haga beri skjalahaldi og hvernig afhenda ætti skjöl til varðveislu á Þjóðskjalasafni.
Hægt er að nálgast skýrsluna á vef Þjóðskjalasafns.