Verslunarkeðjan Krónan hefur brugðist við nýjum sóttvarnaráðstöfunum sem heilbrigðisráðherra tilkynnti um fyrir hádegi í dag. Verður grímuskylda á ný í verslunum Krónunnar, en þetta mun taka gildi á miðnætti.
Þá verður starfsfólki og viðskiptavinum skylt að huga að eins metra nálægðarmörkum.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti um breytingar á sóttvarnarreglum eftir ríkisstjórnarfund í dag. Grímuskylda verður tekin upp á sitjandi viðburðum og í verslunum og afgreiðslutími skemmtistaða styttur um tvo klukkutíma. Skal þeim lokað klukkan ellefu og síðasti maður kominn út klukkan tólf.
Í tilkynningu frá Krónunni kemur fram að samkomutakmarkanir muni ekki hafa áhrif á leyfilegan fjölda viðskiptavina í verslun hverju sinni og eru börn fædd eftir 2006 undanþegin grímuskyldu.
Viðskiptavinir okkar og starfsfólk er orðið þaulvant að bera grímur í verslunum og treystum við því að auknar sóttvarnaaðgerðir geri sitt gagn,“ er haft eftir Ástu S.Fjeldsted, framkvæmdastjóra Krónunnar.