Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það ekki koma á óvart að grípa hafi þurft til hertra aðgerða svo skömmu eftir að takmörkunum var aflétt í samfélaginu. Þá segir hún stöðuna á Landspítalanum ekki alfarið hafa ráðið þeim takmörkum sem kynntar voru í dag.
Að loknum ríkisstjórnarfundi í dag var tilkynnt um að herða þyrfti sóttvarnaaðgerðir til að takmarka útbreiðslu kórónuveirunnar sem hefur nú verið á mikilli siglingu en metfjöldi smita greindist í gær, eða 167 jákvæð sýni.
Þá voru fjöldatakmarkanir færðar úr 2.000 manns niður í 500, grímuskylda verður tekinn aftur upp á skilgreindum svæðum og opnunartími veitinga og skemmtistaða styttur um tvær klukkustundir.
„Ég hefði gjarnan viljað sjá að við hefðum frekar geta uppfyllt það markmið að við hefðum geta aflétt öllu eins og við vorum að stefna að en því miður að þá er faraldurinn á mikilli siglingu hér og núna, eins og ég held að við finnum öll í kringum okkur. Það gildir það sama um önnur lönd í Evrópu. Það eru allir að horfa á þessar smittölur fara mjög bratt upp,“ segir Svandís.
Spurð hvort hún telji þær aðgerðir sem voru kynntar í dag nægar til að hefta útbreiðslu veirunnar, kveðst hún vona það. Vildi þá ríkisstjórnin frekar leggja það í hendur Íslendinga að sinna persónubundnum sóttvörnum heldur en að leggjast í harkalegri takmarkanir.
„Það sem við þurfum að horfa til, númer eitt tvö og þrjú, er að við lítum öll í eigin barm og hugsum um okkur sjálf. Pössum upp á handþvott og fjarlægð, og að við séum ekki í miklu návígi við fólk sem við erum ekki með frá degi til dags. Þannig að við bara förum varlega. Við kunnum það og það hefur gengið vel. Frekar en að fara í mjög harkalegar aðgerðir þá vil ég frekar horfa til þess að passa upp á þessar persónubundnu sóttvarnir.“
Undanfarna daga hafa smittölur verið nokkuð háar og er nýgengi smita innanlands í 345. Spurð hvers vegna ekki var gripið fyrr til aðgerða segir Svandís minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis hafa ráðið förinni. „Það er í rauninni Þórólfur sem tekur á skarið og sendir mér minnisblað í gær. Við erum náttúrleg búin að vera í mjög þéttu sambandi og það eru búnar að vera blikur á lofti nokkuð lengi.
Við vorum kannski að vona það að við næðum að halda þessu í 40 til 50 smitum á dag því það er nokkurn veginn þar sem að okkar þanþol er en svo þegar bylgjan fer að rísa svona hratt upp í 90 og svo tölurnar í gær og í dag - um og yfir 150, þá sjáum við það að það er ekki undan því að víkjast að grípa til aðgerða.“
Áður en tilkynnt var um afléttingar síðast var það sterklega gefið til kynna að ákvörðun ríkisstjórnar um sóttvarnaaðgerðir myndu taka mið af þolmörkum spítalans. Nú hefur Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri LSH, gefið það út að líklegt sé að viðbragðsstig spítalans muni hækka ef þróun faraldursins heldur áfram með sama hætti.
Spurð hvort að geta Landspítala sé það sem ráði fyrst og fremst úrslitum í ákvörðun um frekari takmarkanir, segir Svandís ekki svo vera.
„Það er náttúrulega þetta samspil. Það er ekki bara spítalinn það er líka áhrif smita og veikinda á fólk. Í hvert skipti sem að einstaklingur veikist eru líkur á því að hann geti smitað fleiri og það er fólk í kringum hann eða hana sem fer í sóttkví. Veikindin eru aðal ástæðan fyrir því að við erum að grípa til ráðstafana og svo er það þannig að það vill ekkert samfélag horfast í augu við það að þurfa að vísa frá veiku fólki frá heilbrigðiskerfinu. Við viljum ekki vera á þeim stað,“ segir Svandís.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/11/05/167_innanlandssmit_aldrei_fleiri_greinst/