Fundað verður með viðburðahöldurum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fyrir framan Ráðherrabústaðinn …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fyrir framan Ráðherrabústaðinn í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gert er ráð fyrir að fundað verði með viðburðarhöldurum og haft samráð við þá vegna hertra samkomutakmarkana, enda mikill fjöldi viðburða framundan og uppselt á marga þeirra. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is. Ríkur vilji sé til þess að láta samfélagið ganga og mikilvægt sé að nýta jákvæða reynslu af hraðprófum.

Frá og með miðvikudeginum 10. nóvember mega aðeins 500 manns koma saman í stað 2.000 áður, en þær reglur munu gilda til 8. desember. Með notkun hraðprófa verður þó heimilt að halda viðburði fyrir allt að 1.500 manns.

„Það verður auðvitað líka hægt að nýta einhvers konar hólf og fleira og að sjálfsögðu verður reynt að gera það sem við getum. Við erum auðvitað þegar farin að sjá mikil áhrif af þessum smitum á skólahald, þannig þetta er farið að hafa veruleg áhrif í samfélaginu þrátt fyrir að aðgerðirnar hafi ekki verið miklar að undanförnu. Þetta er líka bara farið að hafa áhrif á hegðun okkar í samfélaginu,“ segir Katrín.

Það sé að sjálfsögðu ríkur vilji til þess að láta samfélagið ganga áfram en ákveðinn millivegur sé farinn í tillögum heilbrigðisráðherra. En ásamt hertum samkomutakmörkunum verður tekin upp grímuskylda í verslunum, á sitjandi viðburðum og þar sem ekki er hægt að viðhafa eins metra fjarlægðarreglu. Þá verður opnunartími skemmtistaða styttur um tvo klukkutíma.

Hægt að nýta góða reynslu af hraðprófum

„Ég ítreka líka að það er rosalega mikilvægt að hvert og eitt okkar gæti að okkar sóttvörnum og ég held líka að það sé mikilvægt að nýta okkur reynslu sem við höfum fengið af hraðprófunum. Sem hefur að mörgu leyti verið jákvæð.“

Katrín nefnir sem dæmi að mjög strangar sóttvarnarreglur hafi verið í gildi á Arctic Circle-ráðstefnunni sem fór fram í október. Þar hafi mikill fjöldi komið saman og allt gengið vel. „Ég held að það sé mikilvægt að fólk byggi á þeirri reynslu gagnvart þessum efri mörkum á fjölda.“

Heilmiklar umræður í ríkisstjórn

Aðspurð hvort það hafi verð samstaða í ríkisstjórninni um að herða sóttvarnarreglur, segir hún:

„Það var heilmikil umræða um þetta en niðurstaða heilbrigðisráðherra er algjörlega skýr og ég styð þá niðurstöðu. Ég tel að þarna sé í raun og veru, eins og áður, verið að fara fram með frekar mildar aðgerðir miðað við aðstæður.“

Hún telur að almenningur muni sýna hertum aðgerðum skilning þrátt fyrir að það gæti  þreytu.

„Auðvitað er þetta orðið mjög þreytandi bæði gagnvart almenningi og öllum. Maður skynjar það í samfélaginu að fólk er lúið á faraldrinum en ég held líka að fólk hafi mikinn skilning á þessu. Við erum að sjá mjög mörg smit, en sem betur fer er fólk ekki að veikjast eins alvarlega og fyrir bólusetningu. Það breytir því þó ekki að við erum alltaf með ákveðið hlutfall sem er að lenda í alvarlegum veikindum.“

Katrín bendir á verslunarrekendur hafi tekið það upp að eigin frumkvæði í gær að biðja fólk um að nota grímur. „Þess vegna ræður maður það af samfélaginu að fólk er meðvitað um stöðuna og vill fara varlega.“

Sama umræða hjá nágrannaþjóðum

Hún segir umræðuna í nágrannalöndunum svipaða og hér og vandamálin þau sömu, enda fari smitum fjölgandi víða. Hinar Norðurlandaþjóðirnar, sem einnig hafi náð góðum árangri í bólusetningum, standi frammi fyrir sömu áskorunum.

„Ég er nýkomin að utan og þar er nákvæmlega sama umræða í gangi. Ég var í Skotlandi þar sem ennþá er grímuskylda, svo dæmi sé tekið. Þannig það er ekki eins og allar þjóðir séu ráðstafanalausar. Það var töluverð umræða í Danmörku vegna vaxandi fjölda smita þegar ég kom þangað. Auðvitað erum við bara stödd á þeim stað að þessi umræða er víða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert