Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, segir stöðuna þunga í húsunum. Færri komast en vilja í einangrun í farsóttarhúsunum og vegna plássleysis og mikils fjölda Covid-smita undanfarna daga hefur þurft að vísa fólki frá húsum í Reykjavík.
„Staðan er þung eins og annars staðar í þessu kerfi okkar og húsin eru að fyllast mjög hratt,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is. Eitt herbergi er laust á Akureyri í dag og 18 í Reykjavík en 31 kom til dvalar í gær.
Gylfi býst við því að fólk haldi áfram að streyma í farsóttarhúsin á meðan smit eru mörg en í gær greindist metfjöldi smita í faraldrinum; 167.
„Þessi bylgja virðist ætla að verða mjög brött þannig að við þurfum að taka höndum saman og láta þetta ganga einhvern veginn upp.“
Hann vonast til þess að ekki þurfi að opna fleiri farsóttarhús en forgangsraðað er hverjir koma í einangrun vegna Covid í farsóttarhús.
„Við reynum að skoða mjög vel hverjir þurfa nauðsynlega að koma hingað inn, það er ekki nóg að vera með covid. Fólk þarf að uppfylla ákveðin skilyrði önnur eins og þau að fólk geti alls ekki dvalið heima hjá sér. Við þurfum að vera enn harðari í þessu eins og staðan er núna.“