Jólin verði gleðileg fyrir einhverja, ekki alla

Opnunartími skemmtistaða verður styttur um tvo klukkutíma frá og með …
Opnunartími skemmtistaða verður styttur um tvo klukkutíma frá og með 10. nóvember. mbl.is/Eggert

„Það er auðvitað hrikalegt að þurfa að taka tvö skref afturábak á þessum tímapunkti þegar jólin eru að nálgast og allar þessar skemmtanir. Ekki bara fyrir bari og krár heldur þá sem eru búnir að plana,“ segir Arnar Þór Gíslason, eigandi Irishman, Lebowski, Dönsku kráarinnar og Enska barsins.

Það er ansi þungt í honum hljóðið eftir tíðindi dagsins, en heilbrigðisráðherra tilkynnti að ráðist yrði í hertar sóttvarnaraðgerðir frá og með miðvikudeginum í næstu viku. Meðal aðgerða er að stytta opnunartíma skemmtistaða um tvo klukkutíma. Verður þeim gert að loka klukkan ellefu og síðasti gestur þarf að vera kominn út fyrir klukkan tólf.

„Þetta er núna eins og ef veitingastaðir þyrftu að loka klukkan sjö á kvöldin, þú getur ímyndað þér hvernig væri bókað hjá þeim. Þetta er auðvitað hrikalega vont en þau eru að gera þetta til að halda jólin gleðileg fyrir einhverja, en ekki alla.“

Fylgja þessu ef það bjargar heiminum

Arnar er þó feginn að fá yfir höfuð að hafa skemmtistaðina eitthvað opna. Það hafi ekki alltaf verið raunin í faraldrinum. Það sé þó þannig að þegar reglur eru hertar þá hægist á öllu

„Þegar stjórnvöld setja þessar takmarkanir þá fer allt í baklás. Fólk byrjar að draga allt saman, sem er auðvitað tilgangurinn með því. En ef þetta er það sem þeir telja einu leiðina til að bjarga heiminum, að stytta opnunartíma skemmtistaða, þá er þetta greinilega gríðarlega mikilvægt og við auðvitað fylgjum því.“

Arnar vonast þá að sama skapi til þess að þegar til afléttinga komi þá verði tekin tvö skref fram á við, en ekki bara eitt.

„Maður vonar bara að þetta gangi vel fyrir sig og þessu verði aflétt sem fyrst og tekin þessi tvö skref áfram. Við munum vera hluti af því að láta þetta ganga og vonum að allir aðrir fylgi því, hvort sem það eru brúðkaup úti í sveit með 500 manns og engin grímuskylda eða opnunartími, eða veislusalir úti í bæ, að þeir hjálpist að. Það er leiðinlegt ef við þurfum að loka en veislusalir úti í bæ með 500 manns eru opnir fram eftir nóttu.“

Telurðu að þessar aðgerðir muni skila árangri?

„Ég ætla rétt að vona það. Þetta er gríðarlegur fórnarkostnaður og setur okkur í hrikalega erfiða stöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert