Átakinu Römpum upp Reykjavík lauk nýlega með smíði á rampi númer 101 í miðborg Reykjavíkur, fjórum mánuðum á undan tímaáætlun og um fimmtán milljón krónum undir kostnaðaráætlun. Í tilefni þess var boðað til blaðamannafundar í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í dag.
„Það er ólýsanleg tilfinning að geta farið niður í bæ og farið á milli verslana, á kaffihús eða veitingahús án þess að þurfa endalaust að hugsa um það hvort ég komist inn eða ekki. Eitthvað sem flestir geta gert án þess að hugsa,“ segir Haraldur Þorleifsson, forsprakki verkefnisins og stofnandi Ueno, í samtali við mbl.is á blaðamannafundinum.
Haraldur segir hugmyndina að átakinu hafa kviknað þegar hann var í verslunarleiðangri með fjölskyldu sinni á Laugaveginum síðastliðið sumar.
„Þau höfðu farið inn í búð að versla en ég varð að sitja úti á meðan og bíða eftir þeim því það var ein trappa sem hindraði mig frá því að komast inn í búðina á hjólastólnum.“
Þó hann hafi oft fundið sig í svipuðum aðstæðum áður hafi þessi tiltekni verslunarleiðangur gert útslagið, að sögn Haralds.
„Það hefur mjög oft verið þannig að ég hef setið úti einhverstaðar meðan fjölskyldan mín hefur farið inn en þarna var bara eitthvað sem brotnaði innra með mér. Ég hugsaði með mér að það væri auðveldlega hægt að laga þetta enda væri þetta bara ein trappa og svo keyrðum við þetta bara í gang.“
Stofnaður var sjóður með aðkomu fjölmargra fyrirtækja og félagasamtaka og opinberra aðila sem stóðu straum af meginkostnaði fyrir þá verslunar- og veitingahúsaeigendur sem tóku þátt í verkefninu Römpum upp Reykjavík, átaki til að bæta aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum í miðborg Reykjavíkur.
Ráðgert var að framkvæmd verkefnisins myndi kosta um 55,5 milljónir króna með efni en til tókst að ljúka verkefninu um 15 m.kr. undir kostnaðaráætlun, að sögn Haralds.
Hann segir þeim góða meðbyr sem verkefnið hlaut að þakka fyrir það hve hratt og örugglega gekk að ljúka því.
„Það var stór hópur af góðu fólki sem gerði þetta mögulegt og það komu allir saman til að láta þetta ganga upp. Fyrir það er ég rosalega glaður og þakklátur.“
Átakinu er þó hvergi nærri lokið en nú er stefnt að því að koma upp þúsund römpum til viðbótar víðsvegar um landið á næstu fjórum árum. Inntur eftir því segir Haraldur enn verið að vinna að kostnaðaráætlun fyrir þennan næsta hluta átaksins. Viðmiðið sé þó í kringum 400 milljónir króna.
Auk Haralds tóku Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra til máls á blaðamannafundinum.
Dagur er að eigin sögn „gríðarlega“ stoltur af verkefninu og þakklátur Haraldi fyrir frumkvæðið að því. Hann segir verkefnið til marks um hve mikið er raunverulega hægt að gera á stuttum tíma, sé viljinn fyrir hendi.
„Það þurfti einhverja orkusprengju eins og Harald til að koma inn í stöðuna og fá alla til að hugsa þetta svolítið bara upp á nýtt. Þegar Haraldur hann kom að máli við mig í fyrrasumar þá grunaði mig ekki að þetta yrði svona stórt, að þetta myndi ganga svona hratt og yrði svona magnað. Svo er þetta líka bara svo fallegt og fellur svo vel inn í myndina að maður situr uppi með það að hugsa af hverju það hafi ekki verið búið að ráðast í þetta miklu fyrr.“
Þó fara eigi með verkefnið víðar hyggst Reykjavíkurborg halda áfram í þeirri vegferð að bæta aðgengi í miðborginni, að sögn Dags.
„Þetta átak hefur miðast að miðborginni og sérstaklega Laugaveginum. Út frá honum liggja hliðargöturnar sem eru að springa út með miklum blóma sem verslunar- og veitingastaðagötur sem við vitum að megi gera aðgengilegri. Við Haraldur höfum þegar nefnt það að við séum alls ekki hætt í Reykjavík þó að verkefnið fari víðar.“