Landspítali var færður á hættustig í dag kl. 16:00. Þá kom viðbragðsstjórn saman til fundar ásamt farsóttanefnd og tók ákvarðanir sem varða breytta starfsemi.
Fram kemur í tilkynningu, að samkvæmt skilgreiningu sé hættustig þegar orðinn atburður kalli á að starfað sé eftir viðbragðsáætlun. Aukið og breytt álag er á fjölmargar starfseiningar. Þetta getur falið í sér bæði breytta starfsemi og tilflutning á verkefnum og starfsfólki.
Þá segir, að nú séu 1.082 einstaklingar í eftirliti Covid-göngudeildar. Þrír sjúklingar liggi á gjörgæsludeild, allir í öndunarvél og einn í hjarta- og lungnavél. Á smitsjúkdómadeild séu nú 13 sjúklingar og nálgist deildin hratt þolmörk. Byrjað sé að huga að flutningi sjúklinga frá lungnadeild til að skapa rými þar fyrir Covid-sjúklinga en búast megi við a.m.k. þremur innlögnum á dag að jafnaði næstu daga.
„Mikill og vaxandi fjölda smita undanfarið mun skila talsverðum fjölda innlagna á næstu vikum. Legutími óbólusettra sjúklinga og þeirra sem þurfa á gjörgæslumeðferð að halda er nokkuð lengri en þeirra sem eru fullbólusettir og því er erfitt að spá um hvernig flæði sjúklinga verður en gott flæði er lykillinn að því að hafa vís legurými á hverjum degi.
Þegar spítalinn er færður á hættustig er dregið úr valkvæðri starfsemi (aðgerðum, inngripum, göngudeildarþjónustu). Með því móti losnar um eitthvað af starfsfólki sem getur þá komið til liðs við Covid-deildirnar. Einnig skapast svigrúm á legudeildum,“ segir í tilkynningu.
Viðbragðsstjórn og farsóttanefnd munu funda daglega næstu daga og gefa út tilkynningar að fundi loknum.