Landsréttur þyngdi dóm nuddara

Landsréttur.
Landsréttur. Hanna Andrésdóttir

Landsréttur þyngdi refsinguna yfir Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni í dag. Jóhannes, sem var jafnan kenndur við meðhöndlunarstöðina Postura, hafði áður verið dæmdur í Héraðsdómi í fimm ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað fjórum konum á meðferðarstofu sinni. Landsréttur þyngdi dóminn í sex ár en Vísir greindi fyrst frá málinu.

Eins og áður segir var Jóhannes þá dæmdur til fimm ára fangelsisvistar auk þess að honum var gert að greiða konunum miskabætur. Einni konunni var honum gert að greiða 1,8 milljón króna, annarri 1,5 milljón króna og hinum tveimur eina milljón króna. Landsréttur lét miskabæturnar standa óbreyttar í dómi sínum í dag.

Málin nokkuð gömul

Jóhannes var dæmdur snemma í janúar í Héraðsdómi Reykjaness en Jóhannes var sagður hafa haft samræði við konurnar án þeirra samþykkis og þá var hann talinn hafa beitt konurnar ólögmætri nauðung.

Málin eru tiltölulega gömul, en brotin eru talin hafa átt sér stað á árunum 2009-2015. Á þeim árum rak Jóhannes Postura en þar meðhöndlaði hann fólk sem glímdi við stoðkerfisvanda. Var Jóhannes þá nokkuð þekktur fyrir störf sín sem nuddari og meðhöndlari.

Um fimmtán konur kærðu Jóhannes upprunalega en rannsókn lögreglu leiddi til ákæru í fjórum tilvikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert