Landsréttur þyngir dóm yfir Þorláki

Landsréttur
Landsréttur mbl.is/Hallur Már

Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir Þorláki Fannari Albertssyni fyrir tilraun til manndráps með því að hafa veist að Herdísi Önnu Þorvaldsdóttur með hníf í íbúð hennar og reynt ítrekað að stinga hana í höfuð og efri hluta líkama. Þá er hann í dóminum einnig fundinn sekur um að hafa veist að öðrum manni áður og svipt hann fresli í 17 klukkustundir og beitt hann ofbeldi. Dæmdi Landsréttur hann í sjö og hálft ár í fangelsi og til að greiða Herdísi 4,9 milljónir í skaða- og miskabætur.

Landsréttur staðfestir niðurstöðu héraðsdóms um að Þorlákur hafi verið sakhæfur þrátt fyrir að hafa þróað með sér geðrofssjúkdóm, en hann var talinn tengdur neyslu vímuefna. Var ástandið talið tímabundið geðrof en ekki varanlegur geðklofi.

Fékk sex og hálft ár í héraði

Þorlákur hafði hlotið sex og hálfs árs dóm í héraðsdómi í janúar á þessu ári fyrir árásina, en taldi dómurinn að um væri að ræða tilraun til manndráps, frels­is­svipt­ingu og sér­stak­lega hættu­lega lík­ams­árás, auk þess sem í dómi hans voru einnig um­ferðarlaga­brot.

Þor­lák­ur hef­ur setið í gæslu­v­arðhaldi síðan hann réðst á leigu­sala sinn, Her­dísi Önnu Þor­valds­dótt­ur, í júní á síðasta ári í íbúð við Lang­holts­veg. Hann gerði þá ít­rekað til­raun til að stinga hana í höfuð og efri hluta lík­ama og hlaut hún ell­efu stungusár.

Her­dís varðist árás­inni með því að bera fyr­ir sig hend­ur og fót­legg. Eft­ir að hún lét sig falla í gólfið sagðist Þor­lák­ur ætla að sleppa henni. Hann fór síðan af vett­vangi og náði hún þá að hringja í neyðarlín­una.

Herdís ræddi í viðtali við SunnudagsMoggann fyrr á þessu ári árásina, afleiðingar hennar og hvernig hún telur kerfið hafa brugðist í tilfelli Þorláks sem á sér langa brotasögu að baki.

Önnur árás hans á tveimur mánuðum

Árás Þor­láks á Her­dísi var önn­ur árás hans á síðasta ári en tveim­ur mánuðum fyrr hafði hann einnig ráðist á fé­laga sinn. Hon­um var gefið að sök að hafa frels­is­svipt mann­inn í allt að 17 klukku­stund­ir, kýlt hann hnefa­höggi, bundið hend­ur hans og fæt­ur með drag­bönd­um og lamið hann með kúbeini.

Þor­lák­ur bar fyr­ir sig að hafa verið í geðrofi er hann framdi árás­irn­ar. Í niður­stöðum geðrann­sókn­ar sem hann gekkst und­ir í júlí á síðasta ári kom fram að hann hefði lengi notað fíkni­efni og væri hald­inn mikl­um rang­hug­mynd­um. Var það metið svo að Þorlákur hafi verið í geðrofi þegar hann framdi árásirnar sem var að öllum líkindum framkallað af fíkniefnaneyslu hans.

Í málflutningi fyrir Landsrétti í október sagði Stefán Karl Kristjánsson, verjandi Þorláks, að hann teldi að ekki ætti að fella árásina undir ákvæði um tilraun til manndráps. Þannig taldi hann mikilvægt að horft væri til þess að Þorlákur hefði stoppað árásina sjálfur og horfið frá vettvangi af sjálfsdáðum.

Taldi Stefán Karl augljóst að Þorlákur hefði ekki verið með sjálf­um sér þegar árás­irn­ar áttu sér stað. Vísaði hann þá til orða Þor­láks og hug­mynda hans um hvað hefði gerst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert