„Þetta er klassískt svindl sem við erum nú að lenda í. Það eru alltaf einhverjir sem reyna að svindla og núna nota þeir okkar nafn í þetta,“ segir Björgvin Víkingsson, forstjóri Ríkiskaupa, í samtali við Morgunblaðið.
Að undanförnu hefur borið á því að óprúttnir aðilar sendi tölvupósta í nafni Ríkiskaupa. Tilgangurinn er að komast yfir persónulegar upplýsingar fólks og reikningsupplýsingar. Slíkar netveiðar hafa verið algengar síðustu misseri en þær hafa gjarnan snúið að bönkum eða póstfyrirtækjum sem fólk er vant að eiga í samskiptum við og býst mögulega við sendingum frá. Ríkiskaup hefur nokkuð sérhæfðan hóp viðskiptavina og flest samskipti við þá fara í gegnum kerfi stofnunarinnar. Þetta er hins vegar í annað skipti á þessu ári sem Ríkiskaup lenda í viðlíka netveiðum.
„Þetta er svolítið skrítið fiskerí en þeir virðast vera að reyna að komast í tölvur viðskiptavina okkar,“ segir Björgvin sem getur sér til að svindlararnir vilji nýta sér stöðu stofnunarinnar, að þeir veðji á að fólk vilji bregðast við sendingum frá Ríkiskaupum. Forstjórinn hvetur fólk til að vera á varðbergi en bendir á að yfirleitt beri uppgefin netföng þess merki að um svindlpóst sé að ræða, þau endi til að mynda á @office-finance1.com. „Þetta er ekki það vandað en við höfum þó tilkynnt þessar veiðar til lögreglu,“ segir Björgvin.