„Nýja uppáhalds heimasíðan mín“

Frá formlegri opnun nýrrar mannvirkjaskrár.
Frá formlegri opnun nýrrar mannvirkjaskrár. Ljósmynd/HMS

Ný mannvirkjaskrá var tekin formlega í gagnið hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) í hádeginu í dag en vinna við skrána, sem er gagnagrunnur um íslensk mannvirki, hefur staðið yfir í nokkra hríð. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Það voru þeir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sem hleyptu heimasíðu mannvirkjaskrár formlega af stokkunum með því að fletta fyrstir uppi í skránni en hópur byggingarfulltrúa og annarra starfsmanna í mannvirkjageiranum fylgdist með.

Sigurður Ingi Jóhannson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, …
Sigurður Ingi Jóhannson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra Ljósmynd/HMS

Löngum vantað yfirsýn yfir markaðinn

Sigurður Ingi segir nýju mannvirkjaskránna skapa áþreifanlegan ávinning.

„Þetta er mikilvægur áfangi og mun hvort tveggja stórbæta þjónustu við almenning, sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir með aðgengi að rauntímaupplýsingum og lækka kostnað þeirra sem nýta upplýsingaveitu af þessu tagi.“

Ásmundur Einar tók undir með honum og segir sveiflur á fasteignamarkaði hafa verið of tíðar hér á landi í langan tíma og að yfirsýn hafi vantað yfir markaðinn.

„Það er því til mikils að vinna að jafna þessar sveiflur og Mannvirkjaskráin er mikilvægt verkfæri til þess.“

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. Ljósmynd/HMS

Mun styrkja stöðu fasteignakaupenda

Mannvirkjaskrá inniheldur nákvæmar upplýsingar um mannvirki á Íslandi og verður t.d. hægt að skoða fjölda íbúða í byggingu eftir byggingarstigi. Það þarf því ekki lengur að keyra um bæinn og telja húsnæði í byggingu, eins og starfsmaður Samtaka iðnaðarins hefur gert síðustu ár, heldur verður með nokkrum smellum í tölvunni hægt að skoða nákvæma stöðu hverju sinni á byggingarmarkaðnum.

Mannvirkjaskráin muni þannig auðvelda yfirsýn á húsnæðismarkaði og gera stjórnvöldum og öðrum hagaðilum kleift að bæta áætlanagerð og koma í veg fyrir miklar framboðssveiflur með tilheyrandi verðhækkunum húsnæðis og áhrifum á verðbólgu. Þá verður í framtíðarútgáfum mannvirkjaskrár auðveldara fyrir almenning að nálgast upplýsingar sem máli skipta um það sem gerst hefur á líftíma bygginga, eins og breytingar á húsum og viðhaldssögu. Þetta mun m.a. styrkja stöðu kaupenda í fasteignaviðskiptum.

Þá er hún einnig mikilvægt stjórntækiu á sviði eftirlits með mannvirkjagerð. Með henni eigi stjórnsýsla að vera gagnsærri og eftirlit auðveldara sem mun að mati sérfræðinga stuðla að meiri gæðum í mannvirkjagerð og þar af leiðandi gera mannvirki á Íslandi öruggari gagnvart hvers kyns tjóni, bruna eða öðru slíku.

Eftir að ráðherrarnir höfðu sett síðuna formlega í loftið tók Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, til máls og sagði: „Ég get sagt ykkur það að þessi vefur er strax orðin nýja uppáhalds heimasíðan mín.“

Skoða má nýja vefinn á mannvirkjaskra.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert