„Mér finnst þetta alveg frábært átak og mér sýnist áhuginn vera nokkuð mikill fyrir þessu,“ segir sundkennarinn Brynjólfur Björnsson um átakið Syndum sem fer fram 1.-28. nóvember. Nú þegar hafa yfir 850 manns skráð sundferðir sínar á vefsíðunni syndum.is. Alls höfðu verið syntir um 1.700 kílómetrar, þ.e. um 1,29 hringir um landið, síðdegis í gær, á fyrstu fjórum dögum átaksins, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Vatnið hefur náttúrulega rosalega góð áhrif á okkur. Þótt maður syndi kannski ekkert þá finnur maður hvað maður er endurnærður, eins og nýr maður, eftir sundferðina. Hvað þá þegar maður bætir við hreyfingunni í mótstöðu vatnsins, syndir nokkrar sundtegundir, þá er maður að virkja næstum alla vöðvahópa líkamans og svo er maður að styrkja hjarta- og æðakerfi. Þetta er mjúk og góð hreyfing fyrir liðina og það er lítil meiðslahætta,“ segir sundkennarinn.
„Maður veit að það er fólk sem er að fara algjörlega á mis við það hvað við höfum mikla heilsulind í þessum sundlaugum svo maður vonar að þetta verði hvatning fyrir fleiri að sækja laugarnar. Það eru bara allt of margir sem hafa ekki séð ljósið, hafa ekki uppgötvað þetta. Það finnst manni svolítið sorglegt því þetta er svo ofboðslega gott fyrir okkur og heldur okkur ungum. Þetta er hreyfing fyrir alla.“