Segir álagsgreiðslur ekki lausn á vanda spítalans

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segist fagna áformum stjórnar Landspítalans um að greiða starfs­mönn­um sem starfa við meðferð sjúk­linga með staðfest eða grun um Covid-19 smit sérstakar álagsgreiðslur. Greiðslurnar muni þó ekki koma til með að leysa þann stóra vanda sem spítalinn hefur staðið frammi fyrir lengi.

„Þetta er bara alveg hið besta mál, að það sé verið að gera eitthvað og það strax. Það er mjög gott að það eigi að umbuna starfsfólkinu fyrir þessi störf, í þessum göllum, sem er mjög erfitt og þungt að vinna í.“

Fyrirkomulag þessarar álagsgreiðslna sé þó ólíkt fyrirkomulagi þeirra álagsgreiðslna sem stjórnvöld ákváðu að greiða til starfsfólks sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana sem starfaði undir miklu álagi vegna heimsfaraldursins í apríl í fyrra.

„Nú verða það aðeins þeir sem þurfa að sinna Covid-sjúklingum, fara í þennan Covid-galla og vera í honum alla vaktina sem fá þessar álagsgreiðslur. Síðast voru fleiri sem gengu þessar greiðslur eins og t.d. sjúkraflutningamenn og hjúkrunarfræðingar á öðrum stofnunum,“ segir hún.

„ Auk þess er það stjórn Landspítalans sem ákvað að stíga þetta skref og fjármagna það að þessu sinni, hvernig sem þau ætla að fara að því.“

Heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir Covid-smituðum sjúklingum þarf að ganga í sérstökum …
Heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir Covid-smituðum sjúklingum þarf að ganga í sérstökum hlífðarbúningi. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Segir vandann ekki leystan án aðkomu stjórnvalda

Greiðslurnar muni þó ekki breyta álaginu og starfsumhverfinu á spítalanum sem er „algerlega óviðunandi“, að sögn Guðbjargar.

„Staðan er bara alveg eins og hún hefur verið og það er vegna þess að yfirvöld hafa ekki brugðist nógu mikið við vandanum. Það hefur bara skort framtíðarsýn. Við erum stöðugt um að tala um að fjölga hjúkrunarrýmum og fleira en þetta gengur bara ekki nógu hratt, þetta er ekki nógu skilvirt og það eru ekki allir að koma að borðinu.“

Hún segir ýmsar tillögur hafi verið lagðar fram um úrbætur en að vandinn sé það stór að hann verði ekki leystur á aðkomu stjórnvalda.

„Það er ekki hægt að berja endalaust á Landspítalanum, að hann eigi bara að gera og græja. Það þarf einhver að taka við sjúklingunum sem þaðan eiga að fara og það þarf einhver að geta sinnt þeim. Til þess vantar hjúkrunarfræðinga. Þetta erum við búin að benda á í mörg ár. Þarna þurfa yfirvöld að taka sig saman og ákveða hvað þau ætla að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert