Spítalinn megi ekki vera fyrirstaða eðlilegs lífs

Áslaug segir lausnirnar ekki geta verið til skamms tíma.
Áslaug segir lausnirnar ekki geta verið til skamms tíma. Árni Sæberg

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra telur ljóst að slá þurfi annan tón í Covid-19 málin hér á landi. Hún bendir á, í skriflegu svari til mbl.is, að „ástand sem varir í mörg ár krefjist þess að nálgast hlutina öðruvísi en til skamms tíma.“

Hún segir þá markmiðið alltaf eiga að vera að koma samfélaginu aftur í eðlilegt horf. Staðan sé einfaldlega þannig að 89% landsmanna, 12 ára og eldri, séu bólusettir og bendir hún á að helmingur þeirra sem þurfa á spítalainnlögn að halda séu úr fámennum óbólusettum hópi landsmanna.

Fólk hafi fórnað miklu síðustu tuttugu mánuði og henni finnst það einfalt reikningsdæmi fyrir heilt samfélag að setja allan kraft í að bæta stöðuna á spítalanum í stað þess að velta álaginu á alla aðra.

Áfram muni fólk smitast af veirunni, samkvæmt sérfræðingum sé það óumflýjanlegt og verkefnið þá til lengri tíma, jafnvel í einhver ár, að lifa með veirunni en ekki takmörkunum með spítala sem getur sinnt þeim sem verða veikir. 

Ábyrgðin snýr að fleiru en veirunni

„Við berum mikla ábyrgð og sú ábyrgð snýst ekki einungis um að verja fólk gegn veiru. Hún snýst líka um að verja andlega og líkamlega heilsu í stærra samhengi, tryggja stöðu ríkissjóðs svo við getum haldið úti öflugu heilbrigðis-, mennta-, og félagslegu kerfi. Að halda úti samfélagi þar sem fólk getur farið frjálst um, notið lífsins, rekið fyrirtæki, mætt í vinnuna og séð fyrir sér og sínum.“

Hún bendir þá einnig á að þrátt fyrir að aðgerðirnar sem kynntar voru í morgun geti talist vægar þá hafi þær engu að síður talsverð íþyngjandi áhrif á hópa í samfélaginu. Nefnir hún þá félagslíf eldra fólks, framhaldsskólanema, áhrif á geðheilsu, atvinnurekstur og afkomu fólks.

Ungt fólk komið með nóg

Ungt fólk sé margt komið að þolmörkum og það liggi fyrir að þessum hópi stafi ekki alvarleg ógn af veirunni.

Í því samhengi bætir Áslaug þó við; „með þeim orðum er ekki gert lítið úr áhrifum veirunnar, en tölurnar tala sínu máli. Við þurfum að horfa til fleiri þátta þegar kemur að börnum og ungmennum.“

Stjórnvöld reiðubúinn til þess að grípa til aðgerða vegna spítalans

Spurð út í stöðuna á spítalanum og hvernig megi bregðast við ef ekki eigi að herða takmarkanir segir Áslaug að stjórnvöld séu reiðubúin að grípa til þeirra aðgerða sem þarf til, til þess að spítalinn ráði við stöðuna. „Það stendur ekki á stjórnvöldum að gera slíkt. Það er gríðarlega mikilvægt að allur krafturinn fari í það að spítalinn sé ekki fyrirstaða í því að hægt sé að opna samfélagið, hvort sem það er aukið fjármagn eða aðrar breytingar.“

Nú hefur ekki mikið verið gefið upp varðandi ráðherrastóla í næstu ríkisstjórn. Hefur Sjálfstæðisflokkurinn áhuga á Heilbrigðisráðuneytinu?

„Já eitt af aðaláherslumálum flokksins í síðustu kosningum voru heilbrigðismálin svo það liggur beint við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert