Trúnaðarmönnum ber að tala máli starfsfólks

Drífa segir atburði vikunnar hafa varpað ljósi á stöðu starfsfólks …
Drífa segir atburði vikunnar hafa varpað ljósi á stöðu starfsfólks innan stéttarélaga, sem og trúnaðarmanna og félagslega kjörinna fulltrúa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Trúnaðarmönnum ber að tala máli starfsfólks inni á vinnustað en það getur verið erfið staða eins og trúnaðarmenn um allt land vita vel. Þeir geta því lent á milli steins og sleggju þegar erfið mál koma upp inni á vinnustöðum. Þetta segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), í pistli á heimasíðu sambandsins. Það sé því engin tilviljun að þeir njóti lagalegrar verndar.

Bæði Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, og Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins, hafa gagnrýnt trúnaðarmenn starfsmanna félagsins opinberlega síðustu daga. Vísa þau til ályktunar sem trúnaðarmennirnir sendu stjórnendum í byrjun júní, en þar var greint frá vanlíðan og upplifun starfsmanna. Viðar hefur sagt framgöngu trúnaðarmanna í málinu óverjandi og Sólveig talað um alvarlega aðför að mannorði hennar, enda hafi hún verið sökuð um fyrirvaralausar uppsagnir í umræddri ályktun.

Töldu sig vera að sinna hlutverki sínu

Í yfirlýsingu frá trúnaðarmönnunum, Ragnheiði Valgarðsdóttur og Hjördísi Ólafsdóttur, sem Vísir.is greindi frá, voru þessar árásir í fjölmiðlum bæði sagðar særandi og vanvirðing við störf trúnaðarmanna. Sögðust þær telja að þær hefðu verið að sinna hlutverki sínu og að ályktun hefði verið send stjórnendum í þeim tilgangi að bæta líðan starfsmanna.

Í samtali við mbl.is í gær vildi Drífa ekkert tjá sig um það hvort eðlilegt væri að trúnaðarmenn væru gagnrýndir með þessum hætti í fjölmiðlum. En líkt og fram kemur í pistli Drífu þá ber trúnaðarmönnum að tala máli starfsfólks, þrátt fyrir erfiða stöðu.

„Það eiga allir skilið að líða vel í starfi“

Hún segir viðburði vikunnar hafa varpað ljósi á stöðu starfsfólks innan stéttarfélaga, sem og trúnaðarmanna og félagslega kjörinna fulltrúa.

„Um það vil ég segja: það eiga allir skilið að líða vel í starfi, og á það jafnt við um starfsfólk, trúnaðarmenn eða félagslega kjörið fólk. Starfsfólk stéttarfélaganna er í framlínu frá degi til dags í þjónustu við félagsmenn. Það mæðir oft mikið á því fólki og það á heiður og virðingu skilda fyrir að sinna sínum störfum. Enda velst þar iðulega til starfa fólk sem trúir á mikilvægi vinnunnar, nauðsyn þess að tryggja heilbrigt, öruggt og réttlátt starfsumhverfi og hefur vilja til að vernda og styrkja stöðu launafólks á vinnumarkaði.“

Það sé mikilvægt að halda athygli á starfinu innan stéttarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar, þó stundum skerist í odda. „Félagsmenn geti leitað til síns félags eftir þjónustu og baráttan fyrir þeirra hagsmunum haldi áfram hvað sem öðru líður. Kraftur verkalýðshreyfingarinnar er í gegnum samstöðu og þess vegna er það grundvallaratriði að traust og gagnkvæm virðing sé ríkjandi,“ segir Drífa í pistlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert