Verið að bera saman epli og appelsínur

„Því miður er þetta ekki alltaf þessi glansmynd sem dregin er upp í fjölmiðlum með það eitt markmið að selja fólki ódýra þjónustu í Austur-Evrópu,“ segir Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, um tannviðgerðir og aðra slíka þjónustu sem Íslendingar sækja í erlendis, í samtali við Morgunblaðið.

Fram kom í umfjöllun ViðskiptaMoggans á miðvikudag að læknastofur í Búdapest hefðu þjónustað á sjötta þúsund Íslendinga hið minnsta á undanförnum árum og að tannlæknastofur þar væru stöðugt að færa út kvíarnar og hefðu jafnvel hafið markaðssetningu á tannlæknaþjónustu hér á landi.

Jóhanna segir Tannlæknafélagið þó ekki hafa sérstakar áhyggjur af þessari þróun, í skriflegu svari til Morgunblaðsins. „Þessi tanntúrismi hefur verið lengi til á Norðurlöndunum og er ekkert nýr af nálinni. Það er alltaf ákveðinn hópur fólks sem velur að fara þessa leið en það eru yfirleitt þeir sem hafa svo sem ekki endilega verið að nýta sér þjónustu tannlækna á Íslandi. En við höfum kannski frekar áhyggjur af því þegar fólk snýr til baka og hefur lent í vandræðum og áttar sig ekki þeirri meðferð sem þau hafa valið og hvað getur gerst í kjölfar umfangmikillar meðferðar. Þar má nefna ofmeðhöndlun og sýkingar af völdum fjölónæmra baktería (mosa).“

Hún bendir á að embætti landlæknis aðhafist ekkert í slíkum tilfellum þar sem embættið hafi einungis eftirlit með þeirri starfsemi sem hefur starfsleyfi á Íslandi. Lögbundnar sjúklingatryggingar á Íslandi nái ekki heldur yfir þessa starfsemi.

„Þannig er það nú að hinn almenni borgari er ekki fær um leggja mat á merðferðarþörf né meðferðarúrræði sem í boði eru og er því oft verið að bera saman epli og appelsínur hvað verðlagningu varðar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert