Verkið tefst líklega enn lengur

Laugardalshöll.
Laugardalshöll. mbl.is/Ómar Óskarsson

Framkvæmdir við endurbætur í Laugardalshöllinni kunna að dragast á langinn vegna þess að enn einu sinni er búið að kæra útboð vegna verksins. Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær ætlar Metatron ehf. að kæra samkeppnisútboð vegna uppfestibúnaðar lýsingar og viðburðabúnaðar í höllinni.

„Mér þykir skelfilegt að heyra þetta. Þetta hefur áhrif á íþróttaæfingar barna og margt fleira,“ sagði Birgir Bárðarson, framkvæmdastjóri Íþrótta- og sýningarhallarinnar ehf., sem rekur Laugardalshöllina.

Endurnýja átti lýsingu og gólfefni í sal Laugardalshallar á liðnu sumri. Höllin hefur nú verið lokuð sem íþrótta- og viðburðahús síðan í nóvember í fyrra. Þá varð heitavatnsleki sem eyðilagði parketgólfið. Búið er að hreinsa gamla og skemmda parketið út. Setja á upp lýsingu sem uppfyllir kröfur við íþróttakeppnir og notkun hússins sem fjölnota húss. Svo verður lagt nýtt parket.

„Parketið er komið eða að koma til landsins. Ljósin eru komin í hús,“ sagði Birgir. Að hans mati er lykilatriði að setja fyrst upp burðarvirkið fyrir ljósakerfið og allar aðrar framkvæmdir fylgi á eftir því.

„Mig minnir að það séu 22 metrar upp í rjáfur. Það þarf að skrúfa upphengibúnaðinn upp í kúluþakið. Við þetta þarf tæki sem ná alla leið, stórar og þungar vinnulyftur. Tækin þurfa að geta keyrt á steyptri gólfplötunni. Þess vegna er ekki hægt að leggja parketið fyrr en búið er að setja upphengibúnaðinn upp.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert