96 innanlandssmit greindust

Frá skimun á Egilsstöðum.
Frá skimun á Egilsstöðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

96 greindust smitaðir af kórónuveirunni innanlands í gær. Þar af voru 39 í sóttkví eða rúmlega 40%. Einnig greindust þrír einstaklingar smitaðir á landamærunum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum en um er að ræða bráðabirgðatölur.

Eru þetta heldur færri smit en greindust dagana á undan en met var slegið í daglegum smitfjölda á fimmtudag þegar 167 smit greindust. Þá greindust 144 smit á miðvikudag. 

Grímuskylda hefur þegar tekið gildi

Þar sem sóttvarnalæknir telur faraldurinn á uppleið verður gripið til hertra aðgerða í samfélaginu næstkomandi miðvikudag, eins og greint var frá í gær. Nú þegar hefur aukin grímuskylda tekið gildi en á miðvikudag munu skemmtistaðir og barir þurfa að loka dyrum sínum á miðnætti og hætta að selja veigar klukkan 23:00. Þá verða samkomutakmörk færð úr 2.000 í 500. 

Ekki er vitað hve mörg sýni voru tekin í gær. 

Alls eru í dag 1.118 í einangrun og 2.343 í sóttkví.

„Gamla góða vísan sem hefur oft verið kveðin sl. mánuði á vel við þessa dagana: Við minnstu einkenni – fara í sýnatöku – þannig slítum við smitkeðjuna,“ segir í tilkynningu almannavarna.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert