Algjör snilld og forréttindi

„Ég elska að hitta fólk úti á götu og ræða …
„Ég elska að hitta fólk úti á götu og ræða tónlistina. Og svo er geðveikt að standa á sviði. En ég reyni að láta það ekki stíga mér til höfuðs, ég vil ekki láta egóið stjórna,“ segir rapparinn Birnir sem var að gefa út plötuna Bushido. mbl.is/Ásdís

Rapparinn Birnir hefur nýlega sent frá sér plötuna Bushido og hefur hún hlotið góðar viðtökur. Birnir semur frá hjartanu og vill vera sannur í öllu sem hann gerir.

Lét segulóma heilann

Bushido er nýjasta plata rapparans vinsæla, en hún kom út fyrir nokkrum vikum.

„Ég hef fengið góðar viðtökur og það er búið að hlusta á hana um milljón sinnum, sem er flott,“ segir hinn 25 ára gamli Birnir.

Flott hárið á þér!

Plötuumslag Bushido er segulómunarmynd af heila Birnis.
Plötuumslag Bushido er segulómunarmynd af heila Birnis.

„Takk, ég er mikill aðdáendi Dennis Rodman en svo var þetta líka gert í takt við plötuumslagið sem er mynd úr segulómun af heilanum mínum. Þetta var hugmynd sem Þórsteinn Sigurðsson vinur minn kom með en hann sá um myndefnið við nýju plötuna. Þannig að ég fór í alls konar skanna og röntgen og lét mynda mig. Nú veit ég að allt er í þokkalegu lagi,“ segir hann og brosir út í annað.

Snýst um að segja satt

Birnir byrjaði að fikta við að semja texta þegar hann var fjórtán ára.

Rapparinn Birnir skrifar texta um lífið, dauðann og tilfinningar en …
Rapparinn Birnir skrifar texta um lífið, dauðann og tilfinningar en vill ekki upphefja neyslu í textum sínum. mbl.is/Ásdís

„Svo kom ég mér í samband við stráka sem voru að gera takta og pródúsera músík og fór að hafa mikinn áhuga á þessu. Ég sagði engum frá þessu en þetta var mitt helsta áhugamál. Ég á heilu bækurnar af textum sem ég hef ekki enn notað. Eini sem fékk að sjá eitthvað á þessum árum var Dagur bróðir minn. En svo hellti ég mér í þetta þegar ég var á Spáni,“ segir Birnir.

Finnst þér gaman að semja texta og lög? Færðu útrás við það?

„Já, ég get ekki alveg útskýrt það. Það að búa til lag og plötu og yfirhöfuð að búa eitthvað til gefur lífinu tilgang. Mér finnst svo gaman að sjá eitthvað ganga upp, að byrja með hugmynd og sjá hana verða svo að veruleika. Það er bæði krefjandi og skemmtilegt.“

Nú ertu opinn og hreinskilinn í textum þínum, ertu að semja um líf þitt og reynslu?

„Það er ekki meðvituð ákvörðun að vera einlægur og hreinskilinn. Þetta snýst meira um að segja satt. En á sama tíma hef ég algjört frelsi að búa eitthvert andrúmsloft til. En lögin eru flest undir áhrifum frá mínu lífi og því sem er í gangi í kringum mig. En samt má segja að það sé ótrúlega flókið að semja um lífið, dauðann og tilfinningar. Það er dýpt í því,“ segir Birnir og segist í raun ekki hafa samið texta sem eru algjörlega skáldaðir, en segist þó hafa áhuga á því og jafnvel blundar í honum að semja skáldsögu einn daginn.

„Ég verð að skrifa út frá minni upplifun því ég get ekki skrifað út frá annarra manna reynslu.“

Það er yfirleitt brjálað stuð

Hvernig byrjaði þinn ferill í tónlist?

„Þegar ég kom heim frá Spáni fór ég á fullt að gera músík. Ég leitaði uppi alls konar fólk í senunni og kynnti mig og kynntist fólki. Ég fór að vinna, en ég bjó í heilt ár hjá afa mínum eftir menntó því mamma og pabbi voru þá enn á Spáni,“ segir hann og segir hann og vin sinn gjarnan hafa unnið á nóttunni.

Birnir nýtur þess að standa á sviði en hann er …
Birnir nýtur þess að standa á sviði en hann er mikið bókaður á böll, árshátíðir og tónleika. Ljósmynd/Ómar Sverrisson

„Ég er aldrei einn í stúdíóinu; mér finnst best að vera einn með einum pródúsant. Þegar ég loks komst í stúdíóið var ég með haug af hugmyndum og við unnum fram á morgun. Stundum var ég í einhverri vinnu og fór þá ósofinn í vinnuna. En svo fór tónlistin að ganga upp og ég fór að fá borgað fyrir að spila. Fyrsta alvöru giggið mitt var á Prikinu en þá var ég búinn að gefa út eitt eða tvö lög. Það var geggjað. En fyrsta stóra „sjóið“ mitt var á Secret Solstice árið 2017,“ segir Birnir en hann var þá rétt um tvítugt.

„Síðan þá hef ég mestmegnis bara verið að gera tónlist, þó ég hafi eitthvað unnið í Covid þegar lítið var að gera í tónlistinni,“ segir Birnir en hann býr nú með kærustu sinni, Vöku Njálsdóttur hagfræðinema.

„Ég er bókaður mjög mikið; á menntaskólaböllum, árshátíðum og alls kyns partíum. Það er yfirleitt brjálað stuð. Svo er mér boðið að halda tónleika hér og þar og sérstaklega núna þegar ég er nýbúinn að gefa út plötu.“

Ég er ekki fullkominn

Fíkniefni komu við sögu í lífi Birnis um skeið en hann hefur algjörlega snúið við blaðinu.

„Ég fór að nota áfengi og fíkniefni og gerði mér svo grein fyrir því að ég þyrfti að hætta því það hafði skaðleg áhrif á mig og fólkið í kringum mig. Á einhverjum tímapunkti fór þetta úr böndunum. Ég snerti á því á nýju plötunni.“

Hvar var botninn?

„Ég hef lent á nokkrum botnum en svo kom gluggi. Ég gerði mér grein fyrir því að ef þetta myndi vera svona áfram yrði ég á sama stað að eilífu. Ég myndi staðna og ekkert myndi gerast,“ segir Birnir og segir það afar vonda tilfinningu að standa ekki við það sem maður lofaði sjálfum sér.

„Þú segir sjálfum þér eitthvað en svíkur svo sjálfan þig. Það hefur ótrúlega niðurrífandi áhrif á sjálfsmyndina,“ segir hann og segist hafa fjarlægst sjálfum sér.

„Ég fékk nóg og tók sénsinn á að fá hjálp. Ég hef farið í nokkrar meðferðir, bæði hér heima og erlendis og er edrú í dag og hef verið í tæp tvö ár.“

Líður þér vel?

„Mér líður alls konar, en aðallega er ég ánægður með líf mitt,“ segir hann og segir mikilvægt að rapparar séu ekki að upphefja neyslu í tónlist sinni.

„Platan snýst líka um að komast á nýjan stað. Opna á nýjar hugmyndir.“.

„Það er líka gaman að krakkarnir séu að hlusta og fíla þetta. Það er algjör snilld og mikil forréttindi að fá að vinna við það sem manni finnst skemmtilegast að gera. Ég er ótrúlega þakklátur að fá frelsi til að gera það og að hlutirnir séu að ganga upp.“

Vil ekki stjórnast af egói

Birnir vinnur gjarnan með öðru tónlistarfólki og segist njóta þess.

„Páll Óskar söng Spurningar sem ég skrifaði. Högni syngur í einu lagi á plötunni. Ég elska að vinna með öðru fólki. Það taka mér allir mjög vel. Við erum í þessum leiðangri saman til að búa til tónlist og viljinn til að gera það frábærlega er til staðar hjá öllum aðilum. Það að vinna með öðrum og fá þeirra hugmyndir á borðið gerir hlutina oft miklu betri og áhugaverðari. Engin hugmynd er slæm hugmynd og við prófum okkur áfram.“

Finnst þér þú vera orðinn frægur?

„Kærastan mín sagði einmitt í gærkvöldi að hún væri að upplifa að ég væri orðinn frægur. Mér persónulega finnst ég ekkert sérstaklega frægur. Ég sé mig ekki sem einhverja stjörnu. Ég tengi ekki við það að vera betri en aðrir.“

Birnir segist ekki sjá sig sem stjörnu.
Birnir segist ekki sjá sig sem stjörnu. mbl.is/Ásdís

En sem listamaður, er ekki gott að einhver kunni að meta þína list?

„Frábært. Það er mesta snilldin. Ég elska að hitta fólk úti á götu og ræða tónlistina. Og svo er geðveikt að standa á sviði. En ég reyni að láta það ekki stíga mér til höfuðs, ég vil ekki láta egóið stjórna. Í grunninn er ég að búa til list og það sem mér finnst vera kúl. Að fá svona góðar viðtökur við því er frábært. Mitt helsta takmark í lífinu er að vera á stað þar sem ég get framkvæmt hugmyndir. Og ég er þar núna og bara dýrka það.“

Ítarlegt viðtal er við Birni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert