Heilbrigðisráðuneytið hefur óskað eftir fleirum á skrá í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Ástæðan er að fjöldi smita hefur verið á mikilli uppleið í samfélaginu undanfarnar vikur sem veldur auknu álagi á heilbrigðiskerfið.
Óskað er eftir liðsinni heilbrigðisstarfsfólks sem er reiðubúið að koma tímabundið til starfa með skömmum fyrirvara, hvort sem er í fullt starf, hlutastarf eða tímavinnu, eftir því sem aðstæður leyfa.
Þetta kemur fram í tilkynningu Stjórnarráðsins.
Laun taka mið af kjarasamningi eða stofnanasamningi viðkomandi stéttarfélags viðkomandi stofnun.
Bakvarðasveitinni var komið á fót í upp hafi heimsfaraldurs þegar ljóst var að mikilvægar heilbrigðisstofnanir gætu lent í mönnunarvanda vegna veikindafjarvista starfsfólks eða fjarvista vegna sóttkvíar. „Nú hefur ákall borist frá Landspítala og fleiri heilbrigðisstofnunum sem þurfa á fólki að halda og því er þess farið á leit að heilbrigðisstarfsfólk sem hefur tök á að veita liðsinni skrái sig í bakvarðasveitina,“ segir í tilkynningunni.
Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um bakvarðasveitina á skráningarforminu á vefsíðu Stjórnarráðsins.