Er þetta þá kannski málið eða hvað?

Dr. Alexander Kristoffersen Lykke tókst á hendur það vandasama verkefni …
Dr. Alexander Kristoffersen Lykke tókst á hendur það vandasama verkefni að skapa fólki utan úr grárri forneskju tungumál fyrir HBO-þættina Beforeigners. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eru okkur nútímafólkinu á 21. öldinni, með okkar snjallsíma og smáforrit, grænkeralífsstíl og gróðurhúsaáhrif, nokkrar leiðir færar til að skyggnast inn um glugga að löngu horfinni fortíð og gera okkur í hugarlund hvernig tungumálið okkar hljómaði fyrir þúsund árum? Hvernig fólk bölvaði og ragnaði áður en kristni var lögtekin og hægt var að styðjast við þægileg köguryrði byggð á karlinum í neðra og hirðsveinum hans?

Er mögulegt að endurskapa tungumál með rúnaristur að vopni eða elstu handrit sem völ er á? Þessum spurningum, og hugsanlega fleiri, hyggst norski fræðimaðurinn Alexander Kristoffersen Lykke, doktor í norrænum málum frá Háskólanum í Ósló og kennari í þeim fræðum við Háskólann í Østfold, gera tilraun til að svara í erindi sem hann flytur í Norræna húsinu í dag undir yfirskriftinni Old Norse, pronounciation and a certain HBO series en Lykke hlotnaðist það verðuga verkefni að smíða tungumál fyrir þætti HBO-streymisveitunnar, Beforeigners, sem slógu rækilega í gegn og skörtuðu í fyrstu þáttaröð meðal annarra íslensku leikurunum Ágústu Evu Erlendsdóttur, Jóhannesi Hauki Jóhannessyni og Ívari Erni Sverrissyni.

Snjallsímar ársins 1000

Leituðu handritshöfundarnir Anna Bjørnstad og Eilif Skodvin til Lykke sem í framhaldinu settist niður við að skapa persónum frá árunum 8000 fyrir Krists burð og 1000 eftir sama burð tungumál, en í Beforeigners birtist fólk frá þessum tímum og árinu 1800 eftir Krist skyndilega í Ósló nútímans og rennur eðlilega ekki eins og bráðið smjör inn í borgarbraginn.

„Við vitum heilmikið um frumnorrænu, miðaldamálið, málfræði hennar og orðaforða, en það er líka margt sem við vitum ekki,“ segir Lykke gegnum Messenger frá hótelherbergi sínu í Reykjavík við blaðamann sem hins vegar er staddur í Tønsberg í heimalandi doktorsins, en hann rekur uppruna sinn til Þrándheims og má vel greina þrænskuna í mæli hans þrátt fyrir langa búsetu í Ósló.

„Þegar ég tók þetta verkefni að mér fyrir Beforeigners-þættina reyndi auðvitað á fræðilega kunnáttu, en það þýðir ekki að maður hafi ekki mátt vera dálítið skapandi og um leið sveigt kröfurnar aðeins með leikarana í huga og hvað þeir gætu í raun borið fram með góðu móti,“ segir Lykke frá. Hann hafi þegar dembt sér í verkið ári áður en tökur fyrstu þáttaraðarinnar hófust og ekki veitt af þeim tíma þar sem mikið samráð þurfti að hafa við handritshöfundana auk þess að þýða og hreinlega búa til fjölda orða yfir hluti, sem ekki voru til árið 1000.

„Þetta var auðvitað snúið,“ játar Lykke, „enginn hefur neina skólun í að skrifa frumnorrænu auðvitað og ég lagðist bara yfir þau gögn og orðabækur sem tiltæk voru og þurfti svo auðvitað að nota ímyndunaraflið, enginn gekk með snjallsíma árið 1000, hvernig átti þetta fólk úr fortíðinni þá að tjá sig um þá?“ spyr Lykke sem útbjó hugtakið talafjöl [ritað með lykkju-ö] um snjallsímana, „þeir líta jú dálítið út eins og fjöl sem maður talar í,“ segir hann og hlær við, „og auðvitað er það bónus þarna að þetta er orð sem Norðmenn geta vel skilið og þið Íslendingar líka,“ heldur hann áfram.

Ágústa Eva aldrei ánægð

Varla er annað hægt en að forvitnast um hvernig leikurunum gekk að tileinka sér þessi „fornu nýyrði“ ef svo mætti að orði komast, varð þeim fornasti kafli norðurgermanskrar málfjölskyldu tamur eins og hendi væri veifað?

„Þetta voru auðvitað heilmiklar áskoranir, þarna var komið tungumál sem leikararnir kunnu hvorki né skildu. Þeir áttuðu sig á því út frá norska handritinu hvað hver setning þýddi, en vissu ekkert hvaða orð var hvað,“ rifjar Lykke upp af tökum þáttanna. „Við útbjuggum upptökur af samtölunum í hljóðveri og leikararnir notuðu þær til að æfa sig,“ heldur hann áfram. „Ágústa Eva var aldrei ánægð,“ segir hann og hlær, „hún var svo nákvæm og mjög upptekin af að ná framburðinum réttum auk þess sem hún var spennt fyrir samspili gamla málsins við sitt eigið nútímamál, íslenskuna, og sökkti sér alveg í þetta,“ segir Lykke, fullur aðdáunar, og harmar augljóslega að persóna Ágústu Evu dó í fyrri þáttaröðinni svo hún var ekki með í þeirri næstu.

Lengra viðtal við Alexander er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert