Færri á djamminu síðustu löngu helgina í bili

Frá leigubílaröðinni svokölluðu við Lækjartorg í lok október.
Frá leigubílaröðinni svokölluðu við Lækjartorg í lok október. mbl.is/Ari

„Nokkuð færri virtust vera úti að skemmta sér þetta föstudagskvöld en síðustu helgar. Þrátt fyrir það var talsverður erill hjá lögreglu og 10 manns voru vistaðir í fangaklefum,“ segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Sóttvarnaaðgerðir vegna uppgangs faraldurs kórónuveiru voru kynntar í gær. Þær taka þó flestar ekki gildi fyrr en á miðvikudag í næstu viku, þar á meðal 500 manna samkomutakmörk og styttri afgreiðslutími skemmtistaða en þeir mega á miðvikudag vera opnir til miðnættis en mega ekki afgreiða drykki eftir klukkan 23:00. Nú mega skemmtistaðir vera opnir til klukkan tvö að nóttu.

Það virðist ekki hafa haft hvetjandi áhrif á fólk að um sé að ræða síðustu löngu skemmtanahelgina, ef svo má að orði komast, í bili, miðað við það sem stendur í dagbók lögreglu um að færri hafi farið út á lífið nú en áður. 

Nokkuð um slagsmál og líkamsárásir

Frá klukkan fimm síðdegis í gær og til klukkan fimm í morgun sinnti lögregla sjö líkamsárásarmálum 

Kona var handtekin fyrir líkamsárás inni á skemmtistað í miðbænum í nótt. Frekari slagsmál voru stoppuð en tveir karlmenn voru handteknir í aðskildum málum vegna þess að þeir voru að stofna til slagsmála í miðbænum og neituðu svo að segja til nafns þegar lögreglan hafði afskipti af þeim. Þeir mega eiga von á því að vera m.a. kærðir fyrir brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar.

Þá var karlmaður handtekinn fyrir grófa líkamsárás í miðbænum en hann er m.a. grunaður um að hafa sparkað í höfuð liggjandi manns.

Ósæmileg hegðun og lögreglumenn bitnir við störf

Fleiri mál komu á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en karlmaður var handtekinn í gær eftir að hafa sýnt af sér ósæmilega hegðun við íþróttasvæði í Laugardalnum. Hann var ölvaður og verður yfirheyrður þegar verður runnið af honum.

Sex ökumenn voru handteknir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna.

Tveir lögreglumenn fóru á slysadeild til skoðunar eftir að hafa verið bitnir þegar þeir voru við störf.

Einnig sinnti lögreglan barnaverndarmálum, kynferðisbrotum, umferðaróhöppum, þjófnuðum og hefðbundnum umferðarmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert