Flestir smitaðir eru ungir

Fjöldi daglegra kórónuveirusmita hefur aukist mikið síðustu daga.
Fjöldi daglegra kórónuveirusmita hefur aukist mikið síðustu daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Af 179 kórónuveirusmitum sem greindust í fyrradag, samkvæmt uppfærðum tölum frá almannavörnum, voru 108 smitaðir undir fimmtíu ára aldri. 

Langflestir smitaðra eru í aldurshópnum 18 til 29 ára, eða 54. Næstflestir eru í aldurshópnum 40 til 49 ára eða 27 og 21 er á aldrinum 30 til 39 ára.

Aðeins tveir af smituðum frá því í fyrradag voru á aldrinum 80 til 89 ára og enginn 90 ára eða eldri.

72 prósent þeirra sem greindust á þessum stærsta smitdegi frá upphafi faraldurs voru bólusett og 28 prósent óbólusett. Um það bil helmingur þeirra óbólusettu sem smituðust voru börn undir 12 ára aldri. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði í gær að slá þyrfti annan tón í Covid-19-málum hér á landi og ekki ætti að nálgast hlutina til skamms tíma í senn. Einblína þyrfti á að bæta stöðuna á Landspítalanum og horfa til eðlilegs lífs.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tekur í svipaðan streng.

„Það er afskaplega óheppilegt að það sé sífellt verið að slá í og úr og breyta takmörkunum sem lagt var upp með. Núna erum við á tuttugasta og fyrsta mánuði þessa ástands, níutíu prósent þjóðarinnar, tólf ára og eldri, eru bólusett og við verðum að fara að finna viðvarandi milliveg sem meginþorri manna og fyrirtækja getur farið að búa við og gert áætlanir samkvæmt þeim,“ sagði Halldór Benjamín í gær í samtali við Morgunblaðið um hertar sóttvarnaaðgerðir og tilheyrandi takmarkanir.

„Hringlandaháttur af þessum toga, þar sem endamarkmiðið virðist vera síbreytilegt og illa skilgreint, gerir ekkert annað en að rýra samstöðu og traust á þeim aðgerðum sem boðaðar eru hverju sinni.

Að því leytinu til voru hertar aðgerðir sem tilkynntar voru vonbrigði,“ sagði hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert