Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri, er ekki ánægð með hvernig staðið hefur verið að banni við lausagöngu katta í sveitarfélaginu. Segir hún ákvörðunina hafa verið tekna bríaríi án þess að leitað hafi verið lausna við vandamálinu.
Meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar samþykkti í vikunni tillögu um bann við lausagöngu katta og á bannið að taka gildi hinn 1. janúar árið 2025. Hilda greiddi gegn tillögunni en það gerðu einnig Sóley Björk Stefánsdóttir, Halla Björk Reynisdóttir og Heimir Haraldsson.
Hilda segist vera ósammála þessari leið en að það sé þó ekki hægt stinga höfðinu í sandinn og hundsa niðurstöður rannsóknar sem gerð var árið 2018 af Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri þar sem kom fram að tæplega helmingur bæjarbúa var fylgjandi banni við lausagöngu katta. Eins berast reglulega kvartanir yfir köttum sem flækjast inn í garða fólks og inn á heimili þeirra sem ekki er hægt að hundsa.
„Ég upplifi og sé, að það hefur ekkert verið gert til þess að reyna að framfylgja núverandi samþykktum sem eru í gildi og eru nokkuð ítarlegar. Í stað þess að rjúka til að vanhugsuðu mál og banna, væri eðlilegra að byrja á því að reyna að leita einhverra leiða til að komast til móts við bæði sjónarmið,“ segir Hilda.
Hún segir að betra hefði verið að skapa samstarfsvettvang um málið þar sem sérfræðingar, íbúar og bæjaryfirvöld gætu miðlað málum. „Þá hefði verið hægt að koma fram með einhverjar tillögur sem hægt væri að láta reyna á í eitt til tvö ár, áður en við setjum algjört bann,“ segir Hilda og nefnir þar til dæmis að takmarka lausagöngu katta á næturnar og yfir varptímann, hvetja til aukinnar skráningar og höfða til ábyrgðarkenndar eigenda.
„Ég hefði kosið þá leið miklu frekar heldur en að rjúka til í einhverju bríaríi og banna. Mér finnst það glötuð leið til að stýra bæjarfélagi. Hluti af því að búa í þéttbýli, þar sem við viljum að einhver fjölbreytileiki sé fyrir hendi, felur í sér að taka tillit og verða einnig fyrir óþægindum,“ segir Hilda.
Heitar umræður um málið hafa skapast í kjölfar frétta af banninu. Hilda segir viðbrögðin sýna að þetta sé stærra mál. Þá hefur verið settur af stað undirskriftalisti fyrir þau sem eru mótfallin banninu.
„Það var ekkert gert til að skoða þetta faglega og yfirvegað, í stað þess var farið í einhverjar skotgrafir,“ segir Hilda.
Hún bendir á að í rannsókninni sem gerð var árið 2018 hafi ekki verið kannað hversu illa lausaganga katta hafi komið við fólk. Hvort bann við lausagöngu katta væri til dæmis forsenda fyrir búsetu eða hvort fólki fyndist kettirnir bara „nett pirrandi“. „Það er eitthvað sem mér finnst skipta miklu máli,“ segir Hilda.
Hilda á sjálf kött og birti nýverið myndband þar sem hún og eiginmaður hennar reyndu að fara með hann út að ganga í bandi. „Ég hef reynt þetta yfir tuttugu sinnum, því hún vill koma út með okkur í göngutúr þegar við förum út með hundinn. En hún hefur oft týnst svo við endum oftast á því að halda á henni,“ segir Hilda og bætir við að hún hafi fylgt öllum leiðbeiningum um að kynna köttinn fyrir ólinni og æfa hann að vera í bandi. Honum haldi þó engin bönd eins og myndbandið sýnir.
Hún bendir einnig á að það hefði mátt kanna afstöðu barna þegar kemur að banninu. Akureyri sé barnvænt sveitarfélag og því hefði mátt leggja könnun fyrir börnin um hvað þeim fyndist. „Þeirra raddir eiga líka að heyrast í barnvænu samfélagi. Ég hefði gjarnan viljað skoða þann flöt á málinu,“ segir Hilda.